mánudagur, febrúar 04, 2008

Útsala útsala

Á gufunni glymja um þessar mundir auglýsingar um tilboð á legsteinum.

Mér og börnunum finnst þetta dálítið sérkennilegt og ræddum yfir kvöldmatnum ýmsa vinkla á svona tilboðum. Spáðum í sölumennsku í þessum geira, hvort heppilegt væri að selja legsteina í síma (ég sagðist mundu hrökkva í kút ef einhver hringdi og spyrði hvort ég hefði hugsað út í kaup á legsteini). Sáum líka fyrir okkur sölumenn sem gengju í hús og seldu legsteina. Hjalti minn sá fyrir sér teiknimyndaauglýsingar, t.d. þar sem fyrir kæmu tvenn öldruð hjón, hroðalegir dauðdagar gömlu kallanna og tvær miskátar ekkjur (önnur forsjál í steinamálum en hin ekki). Spáðum í "tveir fyrir einn" tilboð, eða "kauptu tvo og fáðu þriðja ókeypis". Okkur fannst þetta drepfyndið þótt eðli málsins samkvæmt sé málefnið grafalvarlegt.

Engin ummæli: