sunnudagur, febrúar 03, 2008

Flugstöðvarmas

Enn er ég að blogga á flugstöð. Er á leiðinni heim á skerið sem mér skilst að hafi frosið til andskotans á meðan ég var að spranga um í Köben.

Þessi ferð hefur um margt verið athyglisverð. Var boðið út að borða á afmælinu mínu - á veitingastaðinn Noma, sem skartar tveimur Michelinstjörnum. Þar er norræn matarhefð rifin upp úr hversdagsleika hrökkbrauðs svo um munar. Hef aldrei á ævinni séð jafn frumlega rétti fram borna. Á borðum voru m.a. næfurþunnar hnetuflísar með rúgbrauðsmylsnu og karsa, skorsonrót með "mjólkurhúð" (seig skán af flóaðri mjólk held ég), brauðbollur með skyrsmjöri og margt fleira. Eftirrétturinn var kúmenís með kartöflum, brúnuðum í sykri og ákavíti.

Mér var einnig boðið í leikhús. Fórum á Blóðbrúðkaup eftir Lorca. Frábær sýning, sérstaklega tónlistin. Ástríður og blóðhiti, grimmd og illgirni, fáviska og hefndarþorsti. Allt bara eins og í raunveruleikanum.

Og nú er að takast á við hversdaginn. Sem betur fer er hann iðulega ágætur í mínum ranni.

Engin ummæli: