Hér kemur hugmynd  (áhrifaríkast er að velja kaldan, gráan rigningardag). 
Kveddu ástvin sem þú veist ekki hvenær þú færð að hitta aftur.  Harkaðu af þér, sjúgðu upp í nefið og gleymdu tárunum.  Farðu ein/n í Bónus, leggðu bílnum langt frá inngangi svo hráslaginn nái að kæla þig inn að beini.   Tíndu matvöru handahófskennt  upp í  rangskreiða kerru, skildu hjarta þitt eftir í kjötinu og finndu lífsþróttinn molna í kexdeildinni.  Sjúgðu aftur upp í nefið.  Veldu biðröð fulla af kverúlöntum sem finna sig knúna til að deila um verðlagningu á þriðja hverjum hlut við náföla afgreiðslustúlku sem skilur hvorki íslensku né ensku.  Leiddu hjá þér blaðsölurekka uppstilltra skælbrosa og hlaðborð harma og ógæfu.  Upplifðu djúpstæðan leiðann í augum samferðamanna þinna.  Í biðröðinni í Bónus.  Sjúgðu upp í nefið, þú ert ábyggilega að fá kvef.
Æ, sunnudagar.
 
 
Engin ummæli:
Skrifa ummæli