sunnudagur, október 30, 2005

Ásta...

dóttir mín er útsjónarsöm og snjöll. Hún fann þýðingarforrit á netinu, sem þýðir ýmis mál yfir á íslensku. Ég prófaði forritið og það svínvirkar, samanber:

Today is frostiness river Fróni
frýs into æðum blood
regards coolly
Kári into giant
over laxalóni
liggur í augum uppi gobble
hlær accustom blizzard
hammer

Það fer ekki framhjá glöggum lesendum að hér er á ferð fyrsta erindið í Þorraþrælnum. Þetta forrit er bara snilld. Og fyrst ég er farin að tala um tungumál, þá langar mig að deila með ykkur þessu: bloggerinn minn talar frönsku í dag. Enregistrer en mode Broullion. Publier le message. Legg ekki meira á ykkur að sinni elskurnar.

föstudagur, október 28, 2005

Ég er alveg...

að verða fullorðin. Var að bjóða í íbúð í fyrsta sinn á ævinni (þ.e. ég ein og óstudd). Seljandinn tók reyndar ekki tilboðinu, en ég á von á gagntilboði síðdegis, samkvæmt fasteignasalanum. Fasteignasalinn minn er ungur maður að árum en með ákaflega sorgmædd og gömul augu. Spes. Skrítin tilfinning að prútta um íbúð. Maður er að gambla með þvílíkar fjárupphæðir og setja sig á skuldaklafa fram á grafarbakkann (og lengur). Hrollur. En ég hlakka til að verða sjálfstæð kona í eigin íbúð og standa á mínum eigin fótum. Og læra á dvd spilara og svoleiðis.

Auk þess þetta: bloggerinn minn fór á ítölskunámskeið og segir núna m.a. salva come bozza og pubblica post.

laugardagur, október 22, 2005

Já, takk,

ég hef það skítt. Og þess á milli hef ég það þokkalegt. Má segja að ég hafi það þokkalega skítt. Það er skrítið að skilja við mann sem hefur verið besti vinur minn í ríflega tvo áratugi. Við erum að semsagt að skilja hjónin. Og það er flókið ferli og snýr upp á allar skrokksins taugar, í öllum mögulegum kombínasjónum. Ætla að vitna mér til hughreystingar í nokkur þekkt gáfumenni:
Afi minn sagði: Það er ekki ljótara en það.
Gloría Gaynor sagði: I will survive.
Tímon og Púmba sögðu: Hakúnamatata.

miðvikudagur, október 19, 2005

Nueve entrada

og nú er bloggerinn aftur kominn með máltruflanir. Fyrst talaði hann japönsku, svo þýsku og nú spænsku. Maður lærir svo mikið á þessu öllu saman. Ég þarf t.d. ayuda til að skilja guardar como borrador. En þetta er allt saman ljómandi skemmtilegt. Eins og að vera í útlöndum.

Volver al escritorio (hljómar eins og blessun kaþólsks prests). Og nú ætla ég að smella á publicar entrada. Legg ekki meira á ykkur að sinni.

laugardagur, október 15, 2005

Húsmæðraorlof.

Í dag fer ég í húsmæðraorlof. Við tökum okkur slíkt orlof einu sinni á ári nokkrar gamlar skólasystur úr menntaskóla. Förum venjulega í sumarbústað, göngum hressilega, eldum, drekkum og spjöllum fram á nótt. Í ár förum við í Kópavoginn, sem sagt út á land að venju. Ein okkar á nebbla hús og heitan pott í þessu ágæta bæjarfélagi þar sem er "gott að búa". Ég hlakka til að hitta vinkonur mínar. Við breytumst allar í flissandi skólastúlkur þegar við komum saman og eiginlega erum við langt frá því húsmæðralegar á svona samkundum, fjarri öllum köllum og krökkum. Erum bara stelpur.

fimmtudagur, október 13, 2005

Angurværð og hamstrar.

Einn af íbúunum í litla húsinu okkar heitir Randi. Randi er orðinn gráhærður fyrir allnokkru og mér finnst endilega að hann hljóti að fara að gefa upp öndina (hvað á hamstur sossum að gera við önd). Fyrir dverghamstra eru 2 ár nefnilega eins og 90 mannsár og Randi er búinn að vera gæludýrið hans Hjalta míns alla vega 1 1/2 ár. En Randi er bara svo obboslega hress. Ekki minnkaði krafturinn í Randa við það að vinnufélagi minn einn, sálfræðingur sem hafði gefist upp á sínu gæludýri, gaf mér gula kúlu sem Randi hleypur inni í af ógnarkrafti. Hann skýst hér út um allt eins og gul elding. Ég hef margoft gengið harkalega á hann (óvart) og við það hefur hann skotist 5 metra út í vegg og maður skyldi ætla að það væri slæm bylta fyrir lítinn hamstur inni í gulri plastkúlu. En nei, hann bara byrjar að hlaupa aftur eins og andsetinn. Furðulegt. Ótrúlega hress hamstur hann Randi. Enda í fínu formi og búinn að fá svo oft höfuðhögg að hann fattar ekki hvað hann er orðinn gamall.

Fann þetta spakmæli. Finnst það viðeigandi hér:

There is no reciprocity. Men love women, women love children, children love hamsters.
Alice Thomas Ellis

Síðan eitt spakmæli vegna angurværðar sem umlykur mig í kvöld (maður getur ekki alltaf verið jafn rífandi hress og Randi):

Of all forms of caution, caution in love is perhaps the most fatal to true happiness.
Bertrand Russell ,Conquest of Happiness (1930) ch. 12
British author, mathematician, & philosopher (1872 - 1970)

þriðjudagur, október 11, 2005

Spakmæli dagsins.

You cannot discover new oceans unless you have the courage to lose sight of the shore.

laugardagur, október 08, 2005

Hrós hrós...

fær maðurinn minn fyrir hetjudáð á föstudaginn. Þegar ég kom heim úr vinnunni var kallinn með svuntu og gúmmíhanska. Hann var á kafi í ísskápsþrifum (sem er ekki uppáhaldsverkið mitt). Var búinn að skúbba út öllum líffræðitilraununum og henda öllum "unidentified life forms" sem voru á sveimi. Yndislega fallegt af honum. Hrós, hrós Pétur.

Var annars að koma úr langri göngu, sem var svona passlega skemmtileg. Örnefni flæða út úr eyrunum á mér og ég ætla bara að leyfa þeim að leka út. Jónatan Garðarsson, sem var fararstjóri, er svo fróður að það hálfa væri nóg. Ég hætti að taka við örnefnum eftir ca. 250 stykki. Legg ekki meira á ykkur að sinni. Er að fara í partí.

Sigga sæta..

er ákaflega fyndinn bloggari, sérstaklega núna þegar hún er fótbrotin. Bendi ykkur á að lesa síðuna hennar. Hún er reyndar systir Kevins vinar míns. Mig langar svo að hitta foreldra þeirra - ætli þau séu svona fyndin? Annars getur maður alveg eignast rauðhært barn, þótt maður og maðurinn manns sé ekki rauðhærður (er þetta tæk setning?).

Er annars að fara í göngu á Reykjanesi - og svo er partí í kvöld þar sem á að kveðja Loga skjágengil. Baldvin (rauðhærður fréttamaður) ætlar að smyrja nesti oní göngufólkið, 25 manns. Það verður áhugavert. Læt ykkur vita hvað ég gekk mörg skref og hvernig samlokurnar voru (og hvort ég fann rautt hár í þeim).

fimmtudagur, október 06, 2005

Sá þetta svalheita próf...

hjá Geira frænda mínum (sem er minni nörd en ég og aðeins kúlli).


I am 16% loser. What about you? Click here to find out!


Óhjákvæmileg niðurstaða: ég er bæði kúl og nörd (kúlnördakerla).

mánudagur, október 03, 2005

Jass...

er tónlist sem ég hlusta frekar lítið á, en kallinn hefur mikinn áhuga á jasstónlist. Hann vann það afrek í gærkvöldi að fá mig með á tónleika á Kaffi Reykjavík, jasstónleika. Þarna var um að ræða Ragnheiði Gröndal með einvalaliði, Sigga Flosa, Jóel Páls, Hauk Gröndal o.fl. dúndurgóða hljóðfæraleikara. Mikið af lúðrum. Mikið gaman. Flest lögin fjölluðu um ástina. Asskoti fjalla margir góðir blússöngvar um ástina. Enda er ástin ekkert venjulegt afl í lífinu og allt í lagi að henda saman nokkrum angurværum nótum um ást og heitar tilfinningar.

Þessir tónleikar voru sumsé frábærir og ég skemmti mér konunglega (eða drottningarlega?).

sunnudagur, október 02, 2005

Kvikmyndagerð..

stendur með miklum blóma á heimilinu. Hjalti og nokkrir vinir hans eru upprennnandi dírektörar og listaspírur. Fékk að sjá eina mjög skemmtilega mynd í gær - hún fjallar um gamlan mann (Hjalti í leisíboj með pappírsskegg, brostna rödd og sólgleraugu) sem segir barnabarni sínu söguna af Rauðhettu. Svo hefst útgáfa af þessu klassíska ævintýri sem víkur örlítið frá þeirri sem við þekkjum, enda þrír 10 ára guttar sem leika, stjórna og kvikmynda. Stofa heimilisins breytist í skóg, inniskórinn minn í körfu og sófaræfillinn í rúm ömmu gömlu. Púðum troðið inná peysur (magafylli af ömmu). Minni drengjanna eitthvað götótt á hefðbundinn söguþráð (amma, af hverju ertu með svona mikið hor?). Fliss. Mikill atgangur þegar verið er að frelsa ömmu og Rauðhettu úr iðrum úlfsins (kúl bardagaatriði). Og allt fer vel að lokum, eins og í ævintýrinu. Nema fyrir úlfinum auðvitað. Síðan víkur sögunni aftur til afa gamla í leisíboj og litla drengsins við fótskör hans. Þá er drengurinn sofnaður (leikrænar hrotur) og höfuð afa sígur með hryglum niður á bringu (ég túlkaði endinn þannig að afinn hefði drepist af áreynslunni við að færa vanþakklátu barnabarni sínu arfleifð genginna kynslóða). Endir.