sunnudagur, október 02, 2005

Kvikmyndagerð..

stendur með miklum blóma á heimilinu. Hjalti og nokkrir vinir hans eru upprennnandi dírektörar og listaspírur. Fékk að sjá eina mjög skemmtilega mynd í gær - hún fjallar um gamlan mann (Hjalti í leisíboj með pappírsskegg, brostna rödd og sólgleraugu) sem segir barnabarni sínu söguna af Rauðhettu. Svo hefst útgáfa af þessu klassíska ævintýri sem víkur örlítið frá þeirri sem við þekkjum, enda þrír 10 ára guttar sem leika, stjórna og kvikmynda. Stofa heimilisins breytist í skóg, inniskórinn minn í körfu og sófaræfillinn í rúm ömmu gömlu. Púðum troðið inná peysur (magafylli af ömmu). Minni drengjanna eitthvað götótt á hefðbundinn söguþráð (amma, af hverju ertu með svona mikið hor?). Fliss. Mikill atgangur þegar verið er að frelsa ömmu og Rauðhettu úr iðrum úlfsins (kúl bardagaatriði). Og allt fer vel að lokum, eins og í ævintýrinu. Nema fyrir úlfinum auðvitað. Síðan víkur sögunni aftur til afa gamla í leisíboj og litla drengsins við fótskör hans. Þá er drengurinn sofnaður (leikrænar hrotur) og höfuð afa sígur með hryglum niður á bringu (ég túlkaði endinn þannig að afinn hefði drepist af áreynslunni við að færa vanþakklátu barnabarni sínu arfleifð genginna kynslóða). Endir.

Engin ummæli: