þriðjudagur, október 31, 2006

Nýtt líf

Komið ár. Í nýja lífinu mínu, sem fráskilin kona, hef ég kynnst alls kyns fólki, mörgum yndislegum manneskjum. Ég hef líka gert minn skerf af mistökum. Verndarhjúpurinn "hjónaband" umvefur mig ekki lengur. Spái meira í mannskepnuna. Þarf að læra. Get ekki treyst fólki eins og áður, óð út í nýja lífið allt of opin og auðsærð. Treysti þó fólki enn, en reyni að fara varlegar. Og einni manneskju treysti ég undantekningalaust og trúi á. Ég trúi á sjálfa mig. Trúi því að allt fari vel, að hlutirnir reddist og bjargist, að ég geti áfram teygað að mér lífið og gleðina. Gleðina yfir börnunum mínum og því að vera, já, bara, svona sprelllifandi. Finn til með fólki sem lifir í tortryggni og vantrausti, sem heldur alltaf það versta um aðra. Finn til með þeim sem draga skugga fortíðar fyrir ljós dagsins í dag.

Finnst stundum gott að lesa tilvitnanir þegar ég er í þessum ham. Hér koma nokkrar djúpar.

It is impossible to go through life without trust: That is to be imprisoned in the worst cell of all, oneself.
Graham Greene, The Ministry of Fear

A man who doesn't trust himself can never truly trust anyone else.
Cardinal de Retz

Telling the future by looking at the past assumes that conditions remain constant. This is like driving a car by looking in the rearview mirror.
Herb Brody

Those who face that which is actually before them, unburdened by the past, undistracted by the future, these are they who live, who make the best use of their lives; these are those who have found the secret of contentment.
Alban Goodier

A cynic is not merely one who reads bitter lessons from the past, he is one who is prematurely disappointed in the future.
Sidney J. Harris

I think we agree, the past is over.
George W. Bush (1946 - )

mánudagur, október 30, 2006

Frá tá og niðurúr

Síðan síðast hefur margt á daga mína drifið.

- keypti skó á 700 krónur
- drakk allt of mikið hvítvín á netaverkstæði
- var veislustjóri í fimmtugsafmæli og dansaði eins og vitleysingur (í skónum sem kostuðu 350 kr. stykkið)
- sór þess eið að hætta að drekka (eins og ég geri alltaf í þynnku)
- ruglaðist á bræðrum
- var nöguð af forvitnum hestum
- lærði að búa til sushi
- kláraði að horfa á fyrstu seríuna af 24, en það hefur verið samvinnuverkefni okkar Matta miðbarns (mér fannst endirinn voða sorglegur)

Sagði enga formlega "brandara" sem veislustjóri (bullaði bara uppúr mér), en ætla að birta hér smotterí sem ég var látin lesa upp í annarri veislu um daginn.

Úr sjúkraskýrslum
- Sjúklingur hefur verið í vandræðum með gervifótinn, en hann hefur haft fjóra fætur frá því að hann lenti í slysinu
- Sjúklingur hefur verið niðurdreginn alveg síðan hann byrjaði að hitta mig árið 2003
- Á öðrum degi var hnéð betra og á þriðja degi var það alveg horfið
- Sjúklingur er tilfinningalaus frá tá og niðurúr
- Sjúklingur hefur skilið hvítu blóðkornin eftir á öðrum spítala
- Sjúklingur tárast og grætur stöðugt. Virðist líka vera niðurdreginn

fimmtudagur, október 26, 2006

Nú spyr ég ÞIGHef í langan tíma velt fyrir mér hvað þetta skilti táknar. Það er í Grasagarðinum í Laugardal, stendur í litlu rjóðri. Hingað til hef ég eingöngu spurt fólk sem veit ekki svarið. Hef nú sett fram eftirfarandi tilgátur.

a) varúð, fallandi konur
b) svæði til að iðka hættulegar teygjuæfingar
c) súludans leyfður hér (skiltið stendur á langri súlu)
d) varúð, fallnar konur
e) sé himininn grænn, má búast við kattliðugum, smáfættum konum með úfið hár og hvorugan fótinn á jörðinni

Endilega hjálpið mér að finna út úr þessu.

þriðjudagur, október 24, 2006

Þetta er ekki neikvæð færsla, ég er ekki í vondu skapi

Rakst á þennan kveðskap eftir Örn Arnarson.

Úr Eldhúsdagsræðu Odds sterka

Veldur frekja Framsóknar
fjárhagsleka skútunnar,
allar tekjur uppétnar -
illa rekin trippin þar.

Þó að Framsókn færi skakkt,
festi á skeri þjóðarjakt,
allt er betra en íhaldsmakt,
eins og Jónas hefir sagt.

Íhald lastar Framsókn frekt.
Framsókn lýsir íhalds sekt.
Kjaftæðið er kátbroslegt.
Kuggurinn lekur eins og trekt.

Úr bókinni Illgresi (1942, Menningar-og fræðslusamband alþýðu)

Léttist á mér brúnin þegar ég sá þessa frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag: Svíar telja hvalveiðarnar á sína ábyrgð. Svíar eru mikið fyrir að axla ábyrgð, það er til fyrirmyndar. Vildi að þeir tækju fleira að sér, eins og að bera ábyrgð á veðrinu, öllum þessum hringtorgum, Árna Johnsen, háu matarverði, Kárahnjúkum, helvítis kvefinu og nærbuxum sem skerast upp í rassinn á manni. Er annars á móti því að hefja hvalveiðar á ný, tel þetta vanhugsaðar aðgerðir, skíthrædd um að við séum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. En það er auðvitað ekki á okkar ábyrgð, heldur Svía. Ég ætla að bjóða mig fram og kosningaloforð mitt verður: Svía á hvert heimili.

Annars þyngdist brúnin á mér aftur þegar ég sá, á sömu forsíðu: Hvalveiðar Íslendinga gætu haft áhrif á velgengni Nylon í Bretlandi.

sunnudagur, október 22, 2006

Svona fá þeir syndagjöldin...

sem eru að göltrast úti á kvöldin. Ég er þunn. Eins og vitur kona mælti forðum (það var ég), ber manni ekki á líta á þynnku sem vandamál heldur verkefni.

Var á grímuballi í gær. Geggjað stuð, flottir búningar og frábært band sem heitir Bambínós (allir tónlistarmennirnir eru barnalæknar). Ballið var skipulagt af félagsskap últra-fagurra kvenna sem kalla sig Taumlausar teygjur. Þær höfðu fjárfest í flugfreyjubúningum (á Rómantík.is) og pósuðu sem aeró-portkonur. Vitið þið hvað svona búningur (kjóll úr teygjuefni og kaskeiti) kostar? 12 þúsund krónur! Ekki gefið að vera glyðrulegur nú til dags.

fimmtudagur, október 19, 2006

Mamma

segir að ég eigi ekki að vera með svona dónaskap á síðunni minni. Sorrí mamma, stundum á ég bágt með að hemja í mér púkann (hvaðan hef ég það?). Skal reyna samt.

Bið líka alla fyrirgefningar fyrirfram, meðfram og eftirá út af hverju því sem mögulega getur sært fólk. Takið bara fyrir augun áður en þið lesið bloggið mitt.

miðvikudagur, október 18, 2006

þriðjudagur, október 17, 2006

Oft má salt ket liggja

Hún Lindablinda talar um að orð geti sært og það er alveg rétt hjá henni. Hef oft verið lögð orðasverði, stundum viljandi en sennilega oftar óviljandi.

Í dag fékk ég framan í mig einhverja súrustu móðgun sem ég hef á ævinni heyrt. Fyrst var ég voða sár, en svo greip ég til minna varna. Þær felast yfirleitt í því að hlæja að hlutunum. Og þetta er auðvitað fyndið þótt það hafi verið sett fram gagngert til að særa mig.

Móðgunin varðar útlitið (ég er týpísk kona og voða viðkvæm fyrir nastí kommentum á það). Mér var sagt að ég liti út eins og öldruð Birgitta Haukdal.

Æi. Öldruð?

Hefur alltaf þótt lágt lagst þegar fullorðnir grípa til þess að setja út á útlit annars fólks til að koma höggi á það. Einhvers konar barnaleg rökþrot. "Þú ert bara lítill og kiðfættur með ljótt nef". Gáfulegt?

sunnudagur, október 15, 2006

Ofur venjulegt fólk

Fór í afmælisveislu í gærkvöldi. Meðal gesta var fullt af fólki sem hangir á netinu allan sólarhringinn. Sem sagt ofur venjulegt fólk. Ekkert markvert gerðist. Um tíðindaleysi samkomunnar má lesa á síðu afmælisbarnsins.

Ætla purkunarlaust að viðra hér sjálfhverfuna. Svona er baunin þegar hún fer út á lífið. Hófsöm og látlaus. Dálítið wild en snyrtimennskan þó í fyrirrúmi, eins og skáldið sagði.

Svo langar mig að plögga frábært leikrit. Systur eftir Þórunni Guðmundsdóttur, sýnt í Möguleikhúsinu við Hlemm. Stórgóð sýning, skemmti mér konunglega yfir kvikindislegum húmornum sem vellur og bullar alls staðar þar sem dr. Tóta kemur við sögu. Hún er einn af þessum óbermislegu snillingum sem ég tel til vina minna. Mögnuð kona, magnað leikrit.

fimmtudagur, október 12, 2006

Útburðarvæl

Langar að væla aðeins yfir blaða- og fjölpóstútburði. Alls konar fólk hamast við að bera blöð inn í húsið mitt sem ég verð svo að bera út aftur. Og þau eru mörg en ég er ein. Og einhent í þokkabót.

Svo langar mig líka að vola smá yfir þessu. Ég er nebbla búin að vera að háma og gáma í mig "himneskar" döðlur sl. daga. Hvað í fjáranum eru mítlur?

þriðjudagur, október 10, 2006

Vísindi og loðnar tær.Ærnar hafði ég áhygggjur af dóttur minni þegar hún var í stærðfræðinni í háskólanum, sérstaklega þegar hún fór með 130 aukastafi uppi á sviði, utanað. Sem skemmtiatriði á samkundu stærðfræðinema. Einmitt.

Svo ákvað hún að snúa sér alfarið að efnafræðinni. Mér fannst það bara gott mál. Þangað til í gær. Um kvöldmatarleytið fór ég að finna undarlega lykt. Ákvað að það hlyti að vera af því að ég kemst sjaldan í bað, eða að eitthvað hefði skriðið undir gifsið og dáið. Nokkru eftir að leiðinlega lyktin gerir vart við sig stormar dóttirin inn, babblandi eitthvað um efnafræðitilraun sem datt í gólfið. Stinkurinn á þessu augnabliki var svo megn að pottablóm visnuðu og málning flagnaði af veggjum. Ég heimtaði að henda fötum hennar og skóm, og jafnvel henni sjálfri, í ruslið, en það tók hún ekki í mál. Þrjóskan uppmáluð. Létum duga að setja flíkur í þvottavél og stúlkuna í bað. Skórnir fóru út á svalir og verða sennilega búnir að bræða sig í gegnum alla steypuna niður á fyrstu hæð þegar ég kem heim í kvöld.

Kæmi mér ekki á óvart ef Ásta verður komin með hobbitafætur eftir mánuð. Þá fæ ég að eiga alla skóna hennar.

laugardagur, október 07, 2006

SystkinakærleikurÉg er svo heppin að hafa fætt í þennan heim tvo drengi. Og eina stúlku. Synir mínir eru miklir og góðir vinir, á milli þeirra er þráður sterkari en orð fá lýst. Þó er eitt í fari þeirra sem mér finnst alltaf jafn áhugavert - það er ekki til sá hlutur á jarðríki sem þeir geta ekki gert sér að þrætuepli. Rifrildi uppá 110 dB út af einum grænum hlaupkalli, illa ígrunduðum sprengjukaupum í Tanks tölvuleiknum, eða að sumir setji ekki demparann á þegar þeir æfa sig á píanóið o.s.frv. o.s.frv...eru daglegt brauð. Stóra systir tekur þátt í öskurkeppni af lífi og sál, þegar hún á lausa stund, sem er því miður allt of sjaldan núorðið. Mér er sérlega minnisstætt þegar við vorum eitt sinn á ferðalagi í Danmörku, með börnin þrjú í aftursætinu, að Ásta húðskammaði Matta fyrir að "anda svo hátt".

Sjálf á ég þrjú systkini og víst man ég að við þrættum og slógumst. Þekki mann sem heldur því fram að hann hafi aldrei rifist við bróður sinn og móðir þeirra staðfestir þann framburð. Það hlýtur bara að vera eðlilegt líka...

fimmtudagur, október 05, 2006

Má bjóða yður að mata mig í fyrramálið?Mig vantar hugmynd að grímubúningi sem passar vel við algifsaðan handlegg. Ekki múmía samt, sé fyrir mér alls kyns óhöpp í múmíubúningi. Svo vil ég líka fá ábendingar um rétt dansmúv og alls kyns grúv og pikköpplínur sem falla snyrtilega og smekklega að beinbrotum.

Koma svo!

miðvikudagur, október 04, 2006

Stoltið verður ekki sett í gifs

Í dag gat ég, alveg ein:

- opnað Smjörvadollu og smurt brauðsneið
- farið í sturtu og m.a.s. þvegið hárið (setti plastpoka utanum gifsið og reyndi að halda handleggnum fyrir utan sturtuklefann. Það gekk ekki vel. Hvernig þurrkar maður gifs?)
- klætt mig og krækt að mér brjóstahaldara á innan við hálftíma
- málað mig (eftir bestu getu)
- pikkað þessa færslu

Stolt og sjálfstæði pjattrófunnar hangir á bláþræði. Þoli illa að geta ekki hlutina sjálf. Strax. Hef gott af þessu, veit veit veit.

Fór í bíó í gærkvöld með Ástu og Hjalta, á forsýningu myndarinnar The Devil wears Prada. Mjög gaman að sjá Meryl Streep í kómedíu. Takk fyrir miðana Simmi.

mánudagur, október 02, 2006

Lifið heil, eða gróið vel

Það er allt í fína lagi með mig. Ef ég hefði vitað hvað það er lítið mál að brjóta bein, hefði ég verið löngu búin að því.

Húsmæðraorlofið var sallafínt. Vinkonurnar umvöfðu mig dúnmjúku umönnunarofbeldi og gerðu ekki nándar nærri nógu mikið grín að mér. Í kjallara hótelsins að Reykholti eru alls kyns fyrirbæri og græjur, t.d. nuddstólar, ilmþerapía og stjörnum skrýtt slökunarherbergi. Ég náttla skellti mér í einn nuddstólinn og ýtti á takka. Stóllinn lifnaði umsvifalaust við, greip þéttingsfast um herðar, rass og fætur mér, eiginlega óx utanum mig eins og vafningsjurt, og byrjaði svo að hamast, þannig að ég hristist ákaflega og skókst með mín brotnu bein. Þetta var víst stillingaratriði. Ég hló svo mikið að ég þurfti 2 kg af parkódíni. Fyrir hádegi.

Annars langar mig að þakka ykkur öllum hjartanlega fyrir hlýjar kveðjur. Kemst ekki yfir það hversu heppin ég er að þekkja svona margt frábært fólk. Ást og friður elsku vinir:o)