þriðjudagur, október 24, 2006

Þetta er ekki neikvæð færsla, ég er ekki í vondu skapi

Rakst á þennan kveðskap eftir Örn Arnarson.

Úr Eldhúsdagsræðu Odds sterka

Veldur frekja Framsóknar
fjárhagsleka skútunnar,
allar tekjur uppétnar -
illa rekin trippin þar.

Þó að Framsókn færi skakkt,
festi á skeri þjóðarjakt,
allt er betra en íhaldsmakt,
eins og Jónas hefir sagt.

Íhald lastar Framsókn frekt.
Framsókn lýsir íhalds sekt.
Kjaftæðið er kátbroslegt.
Kuggurinn lekur eins og trekt.

Úr bókinni Illgresi (1942, Menningar-og fræðslusamband alþýðu)

Léttist á mér brúnin þegar ég sá þessa frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag: Svíar telja hvalveiðarnar á sína ábyrgð. Svíar eru mikið fyrir að axla ábyrgð, það er til fyrirmyndar. Vildi að þeir tækju fleira að sér, eins og að bera ábyrgð á veðrinu, öllum þessum hringtorgum, Árna Johnsen, háu matarverði, Kárahnjúkum, helvítis kvefinu og nærbuxum sem skerast upp í rassinn á manni. Er annars á móti því að hefja hvalveiðar á ný, tel þetta vanhugsaðar aðgerðir, skíthrædd um að við séum að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. En það er auðvitað ekki á okkar ábyrgð, heldur Svía. Ég ætla að bjóða mig fram og kosningaloforð mitt verður: Svía á hvert heimili.

Annars þyngdist brúnin á mér aftur þegar ég sá, á sömu forsíðu: Hvalveiðar Íslendinga gætu haft áhrif á velgengni Nylon í Bretlandi.

Engin ummæli: