þriðjudagur, október 10, 2006

Vísindi og loðnar tær.Ærnar hafði ég áhygggjur af dóttur minni þegar hún var í stærðfræðinni í háskólanum, sérstaklega þegar hún fór með 130 aukastafi uppi á sviði, utanað. Sem skemmtiatriði á samkundu stærðfræðinema. Einmitt.

Svo ákvað hún að snúa sér alfarið að efnafræðinni. Mér fannst það bara gott mál. Þangað til í gær. Um kvöldmatarleytið fór ég að finna undarlega lykt. Ákvað að það hlyti að vera af því að ég kemst sjaldan í bað, eða að eitthvað hefði skriðið undir gifsið og dáið. Nokkru eftir að leiðinlega lyktin gerir vart við sig stormar dóttirin inn, babblandi eitthvað um efnafræðitilraun sem datt í gólfið. Stinkurinn á þessu augnabliki var svo megn að pottablóm visnuðu og málning flagnaði af veggjum. Ég heimtaði að henda fötum hennar og skóm, og jafnvel henni sjálfri, í ruslið, en það tók hún ekki í mál. Þrjóskan uppmáluð. Létum duga að setja flíkur í þvottavél og stúlkuna í bað. Skórnir fóru út á svalir og verða sennilega búnir að bræða sig í gegnum alla steypuna niður á fyrstu hæð þegar ég kem heim í kvöld.

Kæmi mér ekki á óvart ef Ásta verður komin með hobbitafætur eftir mánuð. Þá fæ ég að eiga alla skóna hennar.

Engin ummæli: