laugardagur, apríl 30, 2005

Fegurð...

er afstæð og enginn getur skilgreint hana. Fegurð er þó vissulega eiginleiki sem liggur misvel fyrir fólki. Yngri systkini mín tvö hafa nokkrum sinnum verið beðin um að sitja fyrir í auglýsingum og reyndar mamma min líka. Enda eru þau öll fallegar og frábærar manneskjur. En nú kemur sorglegur kafli, viðkvæmir taki upp vasaklút: enginn, já ég endurtek - enginn - hefur beðið mig eða eldri bróður minn að leika í auglýsingu. Við Gunnar bróðir (og kannski pabbi líka) finnum fyrir höfnun af þessum sökum. Við erum litlu andarungarnir sem uxu úr grasi og - VOILA! - urðu bara endur.

föstudagur, apríl 29, 2005

Þið eruð heppin...

því í dag kvarta ég ekkert yfir rækallans kvefinu, sem ætlar mig lifandi að drepa.

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Kvefið...

kvelur mig og plagar. Er búin að snýta af mér kvarthluta nefsins, augun sokkin og heyri ekki hálfa heyrn. Svo tala ég með hljóm sem á fagmáli kallast "lokað nefmæli". Alltaf gaman að þessu.

Sem ég rita þessar línur æfir sonur minn sig á píanóið. Hann er að fara að taka 3.stigið og Ásta 6.stigið (á klarínettið). Mikill dugnaður í blessuðum börnunum og býsna öflug hljóðagerð á þessu heimili. Hugsa stundum til þess hversu undarlegt það verður þegar ungarnir eru flognir úr hreiðrinu - ætli maður umberi þögnina? Kannski syngjum við Pétur bara dúett þegar við erum farin að skrölta í skinnavirkjunum, í takt við ískrið í leisíbojunum...AARRRGH! Þarna var tilhugsun sem fékk hárin til að rísa á höfðinu.

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Svakalegt...

að vera með sandpappír í hálsinum (milligrófan) og hausverk. Langt síðan ég hef verið heima veik, sem betur fer. Búin að lesa öll dagblöðin (alveg ný upplifun) og ætti eiginlega að sinna einhverjum rólegum húsverkum. Húsverk - hausverk, þar liggur snurðan.

Veðrið er yndislegt og köngulærnar úti á verönd aldeilis komnar í ham. Um daginn stóð ég á veröndinni í 5 mínútur og talaði við mömmu í símann, svo þegar ég ætlaði inn aftur, þá gat ég varla hreyft mig fyrir næfurfínum þráðum sem festu mig við handriðið. Köngulærnar okkar eru undur verandar.

mánudagur, apríl 25, 2005

Ég er heima...

með hálsbólgu og hausverk. Fór í vinnuna í morgun, en varð frá að hverfa vegna lasleika. Ætla að reyna að hrista þetta af mér í dag, má ekki við því að liggja í pest.

Hjalti minn las upp úr myndasögu áðan þessa ágætu setningu: ef maður hefur engin rök, talar maður bara hærra. Ég ætla að lúra á þessari tilvitnun og nota hana í uppeldisskyni síðar meir. Grunar að þess verði ekki langt að bíða. Bræðurnir á heimilinu lenda nefnilega oft í réttnefndum hávaðarifrildum. Og enn hef ég ekki rekist á það fyrirbæri í heiminum sem drengirnir mínir geta ekki rifist um. Ekkert er of smátt eða ómerkilegt - allt getur orðið þeim að þrætuepli. Þeir leggja mikið upp úr því að hafa rétt fyrir sér, blessaðir englarnir mínir. Skemmtilegt hvað þeir eru líkir pabba sínum.

sunnudagur, apríl 24, 2005

Jæja, þá eru Matti...

minn og félagar hans í skáksveit Laugalækjarskóla bæði Reykjavíkur- og Íslandsmeistarar grunnskóla. Æsispennandi einvígi var háð milli Rima- og Laugalækjarskóla í dag, til að skera úr um hvor skólinn hreppti Íslandsmeistaratitilinn. Í húfi var ferð til Danmerkur á Norðurlandamótið í haust. Matti og hinir fræknu félagar hans báru sigur úr býtum og hafa nú sankað að sér mörgum dollum, sem geymdar verða í Laugalækjarskóla um aldur og ævi. Frábært hjá strákunum og það þarf vart að taka fram að ég er afar stolt af syni mínum.

Svo þarf maður víst að fara að huga að fermingarundirbúningi - ég hef varla leitt hugann að bráðnauðsynlegum hlutum eins og servíettum, dúkum, veisluföngum, gestum, ljósmyndara o.fl. En við hjónin afrekuðum þó að kaupa garðhúsgögn í dag. Voða fín. Æ, þetta kemur allt með kalda vatninu.

laugardagur, apríl 23, 2005

Gíraði smáborgaraháttinn...

upp í góða veðrinu og fór í Smáralind. Í staðinn fyrir að gera eitthvað skynsamlegt, eins og t.d. að fara í fjallgöngu. En það er náttúrlega sígild skemmtun að troða sér í leppa í skelfilega þröngum mátunarklefum.

Í gærkvöldi þegar ég var að ganga frá eftir matinn hlustaði ég á gamla uppáhaldshljómsveit, Santana. Meistararnir í Santana eiga tvö af bestu lögum sem heyrst hafa, Black Magic Woman og Europa. Þetta eru gömul keleríslög frá mínum sokkabandsárum og koma mér alltaf í stuð, já, jafnvel stuð til að hamast við eldhússtörfin. Þið ættuð bara að sjá eldavélina núna - hún glóir og glitrar og skín og brosir.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Sumardagurinn fyrsti...

og ég var einmitt úti í garði að grófhreinsa beð. Grýtti allmörgum þriggja metra risamjaðjurtarstönglum frá því í fyrra í safnhauginn. Tekur svona 10 ár fyrir þessi fyrirbæri að verða að mold. Ég bíð bara róleg.

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Takk fyrir...

veturinn:) og gleðilegt sumar, elskulegu lesendur nær og fjær.

Snemma gýtur góður vetur kálfi.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Framlag Hússtjórnarskólans...

í Hallormsstað í söngkeppni framhaldsskólanna 2005 er frumsamið (lag og texti) af tveimur nemendum og er svona:

Vefnaðarkennarinn

Ég var ástfangin
í fyrsta sinn
en maðurinn
var kennari.

Ég var í vefnaði
er hann kom til mín
og sagði mér
"ég er lofaður".

Í vefnaði
sem ég hataði
ég vildi drepa mig
- vefnaðarkennarinn.

Hér sit ég ein
með bandinu
ef ég fæ hann ei
fær enginn mig

í myrkrinu
allt er ömurlegt
ó kenndu mér
í vefnaði

ég vef bandinu
um hálsinn minn
ég vil fara burt
úr lífinu

a-úúúú..
o-úúú..

Af hverju vill kennarinn mig ekki?
Hann á bara eftir að uppgötva að hann elskar mig
hvað með það þó hann eigi konu
það er engin hindrun
það er bara töf.

Í vefnaði
sem ég hataði
ég vildi drepa mig
- vefnaðarkennarinn.

Kennarinn
kom hlaupandi
að losa mig
hann elskar mig
Sigfinnur
þú ert kennarinn minn
taktu mig
heim með þér.

Í Mónópólí spilinu
ég skemmti mér
með Sigfinni.

Í spilinu
ég skemmti mér
með Sigfinni.

Vefnaðarkennarinn.

mánudagur, apríl 18, 2005

Orðagetraun dagsins.

1.Bittinú.
2.Karnaður.
3.Vobeiða.
4.Martagl.

Kannast lesendur við þessi orð? Ég opnaði orðabók tilviljunarkennt á fjórum stöðum og renndi puttanum niður dálk þar til ég fann áhugavert orð á hverri opnu. Hvað þýða þessi orð? Gettu nú.

a)kynmök
b)ský
c)vera sem boðar óhamingju
d)lýsir gleðiblandinni undrun

sunnudagur, apríl 17, 2005

Innanlandsflug...

getur verið hálfgert happdrætti, það hef ég reynt á eigin skinni. Veðurtepptist á Akureyri í gær, en þar var ég stödd á ráðstefnu um læsi á 21.öldinni. Fín ráðstefna. Á Akureyri voru, auk mín og 300 annarra ráðstefnugesta, nokkur þúsund ungmenni vegna Söngkeppni framhaldsskólanna. Sumsé - afar slæmt að veðurteppast akkúrat á þessum tíma, t.d. ekki mikill séns á gistirými. Það er skemmtileg tilviljun að síðast þegar ég var stödd í höfuðstað Norðurlands veðurtepptumst við hjónin þar. Eftir margra tíma bið á flugvellinum hafði Flugfélagið þó afrekað að senda töskuna okkar suður - þeim er ekki alls varnað. En við stóðum sumsé úti í norðlenskri stórhríð án gistingar, bíls (ekki einn einasta bílaleigubíl að fá), tannbursta eða annarra nútímaþæginda. Starfsmaður á flugvellinum setti á sig snúð þegar við mölduðum í móinn og sagðist ekki bera ábyrgð á veðrinu. Það er ábyggilega rétt hjá honum.

En aftur til gærdagsins - ég fékk á endanum far með fjórum góðum konum á suðurleið. Þær voru ljómandi skemmtilegar og gekk ferðin heim snurðulaust - ekkert stoppað á leiðinni nema einu sinni til að taka olíu. Var reyndar að drepast úr hungri og verkjum í fótum allan tímann, enda óétin síðan um hádegi og í þröngum pæjustígvélum og dragt (kona á framabraut er flott í tauinu - skítt með tær og annað sem kremst). Þegar ég skreiddist yfir þröskuldinn heima, seint um kvöldið, kyssti ég parketið, velti mér yfir á bakið og kallaði æst á Pétur. Hann skildi hvað ég vildi, dró umsvifalaust af mér stígvélin og eldaði svo handa mér tvo hamborgara. Ég er vel gift kona.

miðvikudagur, apríl 13, 2005

Kannast lesendur...

við orðtakið "nú er best að þegja eins og tjörutappi"? Rakst á þetta skemmtilega orðasamband á bloggsíðu annars gamalmennis sem kallar sig æri (gamalærir).

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Hjalti...

sonur minn hefur skoðun á öllu, harðneitar að fara í klippingu, borðar eins og fugl, forðast útiveru og gengur í ósamstæðum sokkum. Á ég að hafa áhyggjur?

mánudagur, apríl 11, 2005

Skáksnillingurinn...

nei, ekki Fisher, heldur Matti sonur minn brilleraði á Reykjavíkurmóti grunnskólasveita, eins og sjá má hér . Oooo, ég er svo stolt af stráknum!

sunnudagur, apríl 10, 2005

Bakaði...

gulrótartertu og súkkulaðiköku í dag. Fór líka í heimsókn til Möggu vinkonu minnar. Var að skila af mér dóttur hennar, Álfheiði Eddu, sem gisti hjá okkur. Edda og Hjalti eru góðir vinir alveg eins og Tumi, bróðir Eddu, og Matti minn eru góðir vinir. Afar hentugt. Svo kíkti ég á gamla settið í Garðabænum og færði þeim smá heimabakstur. Þau voru að fá rosa flotta kaffivél sem hvæsir og frussar og freyðir mjólk og býr til dúndur kaffi. Nú geta þau stofnað kaffihús, þ.e. þegar mamma er búin að læra aðeins betur á græjuna (og hættir t.d. að henda síunni með kaffikorgnum í ruslið).

laugardagur, apríl 09, 2005

Tiltekt...

getur leynt á sér. Mæli hjartanlega með ísskápsþrifum sem þerapíu. Dreif mig í þetta verk í morgun og það var bara eins og birti í sál minni með hverjum skítabletti sem hvarf og hverri útrunninni og myglaðri matvöru sem ég þeytti í ruslið. Skápurinn varð skínandi hreinn og bara næstum tómur á eftir, svei mér þá. Svo skelltum við Matti okkur í Bónus og ísskápurinn er núna fullur af góðum mat. Og sál mín er hreinni en hún var í gær.

fimmtudagur, apríl 07, 2005

Kalluglan mín...

er í Færeyjum og verður þar í nokkra daga. Skyldi hann tala eins og Dómínós pítsu gaurinn þegar hann kemur heim? Sennilega er ændjin heitta eá tví.

miðvikudagur, apríl 06, 2005

Æ, æ..

ég er búin að vera svo reið undanfarið en nú hef ég ákveðið að hætta því. Það er ekki eins og maður geti stjórnað því hvernig aðrir hugsa, eða breytt fordómum fólks. Sumir vilja ekki sannleikann, bara troða öllu inn í fastmótað hugmyndakerfi og gefa sér alltaf niðurstöðuna fyrirfram. Held að allflestir "flokkshollir" hugsi á svoleiðis brautum, þeir sjá og heyra það sem þeir vilja (og það sem passar inn í rúðustrikaðan heilann á þeim). Mér er nokk sama hvort þeir eru til hægri eða vinstri, held hreinlega að flokkspólitísk hugsun eyðileggi færni fólks til að hugsa sjálfstætt og vega og meta atburði, menn og málefni. Ég fagna því að vera og hafa alltaf verið pólitískt viðrini. Ef við vindhanarnir og viðrinin í pólitík stofnum flokk - verðum við þá líka svona óskaplega þröngsýn? Sennilega. En slagorð okkar verður: Sammála síðasta ræðumanni (nema hann sé alveg óskaplega vitlaus, þá hlæjum við hátt og stórkarlalega).

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Aumingja Mikael..

Torfason er með gaddakúlu í iðrunum yfir RÚV. Sú stofnun virðist fara endalaust í taugarnar á honum og hann þreytist seint á að þreyta lesendur sína með pistlum, skotum og dylgjum um RÚV. Sennilega er hann gamall afnotagjaldaskuldari og líkar illa að fara eftir lögum sem ekki falla að hans persónulega smekk. Hann um það. Hins vegar finnst mér arfavont að lesa þetta bull um eiginmann minn, starfsmann RÚV, í leiðara Mikaels í dag. Mikael erkiengill sakar þar eiginmann minn um óheiðarleika og ýmislegt annað. Úúú...en maður skelfur náttúrlega á beinunum þegar DV fer að gagnrýna aðra fyrir óvönduð vinnubrögð! Þar á bæ hefur sko aldrei neinu vafasömu verið slegið fram á prenti... Getur DV prédikað um siðfræði blaðamanna? Já, einmitt. Alveg eins og Saddam Hussein gæti tekið við formennsku í Amnesty International.

mánudagur, apríl 04, 2005

Viðburðarík var...

helgin, vissulega. Við fengum til okkar góða gesti á laugardagskvöldið, Magga og Þóru. Í raun er einstakt að eiga svona góða vini sem maður getur gleymt sér með heila kvöldstund og tíminn bara flýgur hjá. Sannarlega eitthvað til að vera þakklátur yfir.

Löbbuðum á Helgafell við Kaldársel með Jóni bróður og Möggu á sunnudaginn í blíðskaparveðri. Það var óhemju skemmtilegt og furðu margir að potast upp fjallið, þrátt fyrir snjóinn. Mæli með göngu á Helgafellið - þetta er létt og skemmtileg ganga og það er nú bara 340 m hátt og aldrei neitt voðalega bratt (aðeins mismunandi flatt).

föstudagur, apríl 01, 2005

Litli græni...

Matador bíllinn keyrði útaf taflborðinu í hádegisfréttunum í dag. Æ,æ nú liggur við að maður vorkenni AGÓ, en hann var nú vitlaus að láta etja sér út í pólitískt valdatafl án þess að kunna mannganginn. Og að kenna síðan fréttamanninum um ófarirnar er nú bara lélegt. AGÓ jarðaði sjálfan sig í einhverju aumingjalegasta viðtali sem ég hef á ævi minni heyrt. Sennilega alls ekki svo gott efni í fréttastjóra blessaður maðurinn eftir allt saman.