laugardagur, október 07, 2006

Systkinakærleikur



Ég er svo heppin að hafa fætt í þennan heim tvo drengi. Og eina stúlku. Synir mínir eru miklir og góðir vinir, á milli þeirra er þráður sterkari en orð fá lýst. Þó er eitt í fari þeirra sem mér finnst alltaf jafn áhugavert - það er ekki til sá hlutur á jarðríki sem þeir geta ekki gert sér að þrætuepli. Rifrildi uppá 110 dB út af einum grænum hlaupkalli, illa ígrunduðum sprengjukaupum í Tanks tölvuleiknum, eða að sumir setji ekki demparann á þegar þeir æfa sig á píanóið o.s.frv. o.s.frv...eru daglegt brauð. Stóra systir tekur þátt í öskurkeppni af lífi og sál, þegar hún á lausa stund, sem er því miður allt of sjaldan núorðið. Mér er sérlega minnisstætt þegar við vorum eitt sinn á ferðalagi í Danmörku, með börnin þrjú í aftursætinu, að Ásta húðskammaði Matta fyrir að "anda svo hátt".

Sjálf á ég þrjú systkini og víst man ég að við þrættum og slógumst. Þekki mann sem heldur því fram að hann hafi aldrei rifist við bróður sinn og móðir þeirra staðfestir þann framburð. Það hlýtur bara að vera eðlilegt líka...

Engin ummæli: