Þegar ég flutti inn í íbúðina mína þurfti ég afskaplega mikið á iðnaðarmönnum að halda, hér voru smiðir, rafvirkjar, píparar og menn sem ég kann ekki deili á en þeir voru oft eitthvað að sýsla með snúrur og tól.
Einhvern daginn var hringt og mér boðið *****, þeir ætluðu að senda fólk til mín (ef ég samþykkti) og setja það upp. Ókeypis.
Nú. Skömmu síðar bönkuðu hér á dyr tveir menn. Man að þetta voru ungir og laglegir piltar, útlendingar. Ég skildi ekki hvað þeir sögðu og þeir ekki mig, en hugsanlega skildu þeir hvor annan. Mennirnir gengu rösklega til verks og settu þennan kassa (sjá mynd) á skorsteininn í litla eldhúsinu mínu.
Það hefur hangið þarna ósköp vært í 1 1/2 ár. Engin hljóð koma úr kassanum, engin ljós, engar verur, engin lykt. Ekki er ég að kvarta yfir mínum hljóðláta sambýlingi. En, fólk bendir stundum á það og spyr, "baun, hvað er þetta?", og ég svara "hef ekki hugmynd, lét setja þetta upp hjá mér".
Nú spyr ég, hvað hangir á skorsteininum í eldhúsinu mínu?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli