Ég á mínar veiku stundir. Langar aftur á fésbúksófétið. Sakna góðra vina minna þar. En það er svo margt flókið á fésbúknum. Maður á til að láta þvaðrið í sumum fara í taugarnar á sér, þótt viti borin manneskja ætti að vera yfir það hafin.
Í gegnum blogg, og síðan fésbúk, hef ég kynnst skínandi mannverum. Þær eru til í alvöru, allavega sumar. Það verður hver að svara fyrir sig hvort hann sé til í alvöru. Sumar týpur eru auðvitað lyginni líkastar.
En nú er ég sumsé í mánaðarbindindi frá FB og vona að ég lifi það af. Af hverju bindindi? Af því að ég var farin að hanga allt of mikið í tölvunni og vanrækja annað athæfi, t.d. bóklestur, bróderingar og stefnulausan slæping. Það er ekki gott fyrir einræning eins og mig að vera of mikið í tölvunni.
Og svona fyrst ég er hætt á Eyjunni, fannst mér liggja beint við að fara aftur á gamla staðinn. Á eftir eitthvert dúllerí við að uppfæra tenglalista og annað. Það er ósköp stirt þetta "template", get ekki lagað það án þess að tapa öllum kommentum. Færslurnar hér eru orðnar tæplega 1200 talsins og að viðbættum þeim sem birtust á Eyjunni og á hinu blogginu hef ég puðrað út í loftið um 1300 færslum - maður er enginn nýgræðingur í bransanum. Spekin yfirgengileg (og öllum aðgengileg).
Blogg spogg gogg rogg mogg fogg klogg.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli