laugardagur, september 12, 2009

Tossalisti

Þar sem ég vinn alla virka daga mér til húðar og get lítið sinnt öðru, hef ég ætíð stór plön um helgar. Ég meina, tveir heilir dagar til að gera allt sem þarf að gera og eitthvað pínulítið af því sem mig langar að gera. Áætlun helgarinnar er þéttpökkuð og lítur svona út:

1. Þvo og merkja sultukrukkur.

2. Hafa miklar og stöðugar áhyggjur af húsnæðismálum dóttur minnar sem hélt til náms í Skotlandi og var svikin af forhertum klækjakvendum. Aldrei að treysta fólki sem heitir Bond.

3. Ígrunda sláturgerð.

4. Brjóta niður stromp (annað hvort fer hann eða ég).

5. Vera víðsfjarri sjónvarpinu annað kvöld, ef vera skyldi að enn ein hunda-hestamyndin dúkkaði upp á RÚV. Afber ekki fleiri.

6. Reyna að gleyma þeirri bitru staðreynd að ég veit aldrei svarið við spurningunum í Popppunkti.

7. Forðast fréttir af fjármálum, nema féð segi me.

8. Sýna af mér flysjungshátt.

9. Taka til, fara í búð, ráða sunnudagskrossgátuna.

10. Móta framsækna framtíðaráætlun (eða ekki, ég heyrði þetta bara sagt svo gáfulega í sjónvarpsfréttum).

Engin ummæli: