þriðjudagur, desember 11, 2007

Heilt yfir biturð

Baun er bara skensuð á bloggsíðum út um allar koppagrundir fyrir að hafa álpast inn á femin.is og fyrir að hafa sagt að femin.is hefði nú verið rakið lén fyrir Feministafélag Íslands. Skynja ólgandi fordóma gagnvart ímynd konunnar sem gluggar í sjálfshjálparbækur, er óaðfinnanlega förðuð, vel búin hjálpartækjum ástarlífsins og ávallt í drellfínum nærklæðum. Getur þessi kona ekki verið femin.isti?

Er annars í súru skapi. Svaf illa í nótt, veðrið lamdi húsið mitt af fáheyrðri vonsku. Svo sat ég í stofunni áðan og innlit/útlit rúllaði á skjánum án þess ég væri beint að horfa, en þessi þáttur nær að fara óskaplega í taugarnar á mér. Örugglega öfundsjúk út í allt þetta fallega fólk sem virðist eiga skítnóg af peningum og eyðir þeim svona glimrandi smekklega.

Djöfull er ég bitur í dag.

Engin ummæli: