mánudagur, desember 10, 2007

Forskalað piparhús með osthúð

Heyrði í vinnunni í dag að Svíar smyrji gráðosti á piparkökurnar sínar. Ekki galin hugmynd, ætla að prófa það við fyrsta tækifæri.

Reyndi einu sinni að baka piparkökuhús, stakk út veggi og þak eftir auganu og bakaði. Þegar húshlutarnir komu úr ofninum voru þeir svo misstórir og skakkir að húsið leit út fyrir að vera viljandi ljótt. Nei, ok, það leit út eins og þokkalega hlaðin áramótabrenna. Hefði nú ekki verið ónýtt að geta smurt þykku lagi af gráðosti á það hrófatildur.

Börnin mín rifja upp misheppnaða kökuhúsið um hver jól og hlæja dátt að því hvað mamma var léleg í húsagerðinni. Af þessum piparkökukofaræfli hefur því spunnist meiri gleði og kátína en af nokkrum öðrum bakstri sem ég hef staðið fyrir. Svei mér þá.

Engin ummæli: