sunnudagur, mars 23, 2008

Fótur fyrir kornabarni í potti

Búin að gera eitt og annað menningarlegt hér í útlöndum. Til að nefna eitthvað nefnanlegt mætti nefna:

- Fór á tvo geggjaða flóamarkaði, veit fátt skemmtilegra. Langaði að kaupa hundrað hluti, endaði samt bara með nokkur handskorin púrtvínsglös og gríðarlega fallegan gamlan myndaramma.
- Skokkaði eftir götum borgarinnar, meðfram Eyrarsundinu sjálfu, sneiddi fimlega fram hjá fólki og hundaskít. Langaði rosalega að skokka inn í kirkjugarð með mjúkum stígum, en það er víst ekki til siðs hér.
- Sótti Bakken heim í brunagaddi og staðurinn var eins og draugabæli í kuldanum. Vorkenndi fólkinu helling sem var að vinna þarna, krókloppið.
- Andaði að mér helíum og las upphátt úr bloggi Ármanns Jakobssonar.
- Maturinn í Danmörku er syndsamlega góður, úrvalið, vínið í kjörbúðunum, ostarnir, kjötið, ávextirnir, grænmetið, gríska jógúrtið.....mig langar að búa hérna.
- Hringdi í mömmu, rabbaði við hana, fannst hún eitthvað kvefuð í röddinni. Kom í ljós að þetta var skakkt númer og ég hafði spjallað drjúga stund við ósköp notalega eldri konu sem virtist alveg til í að vera mamma mín.
- Dreymdi í nótt að mér var gefin kjötkássa, í henni var mikið grænmeti og hálft kornabarn. Einnig nokkrir bitar af sterklegum karlmannsfæti.

Hafði með mér að heiman Ora grænar baunir fyrir kærastann (undarleg sérviska), en hann ætlar að elda írskt lambalæri handa mér í kvöld. Legg ekki meira á ykkur í bili.

Engin ummæli: