fimmtudagur, mars 27, 2008

Týnd bros og ný

Aðeins eitt gott við svona veikindi. Get lesið af og til, þegar hausinn er ekki alveg að klofna. Lauk langri og ágætri bók, Óreiðu á striga eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Var yfir mig hrifin af Karitas á sínum tíma, en finnst framhaldið aðeins síðra, þótt þetta sé fyrirtaks lesning. Reyndar fer Karitas sjálf oft í taugarnar á mér í Óreiðunni, hún er svo snefsin og leiðinleg í umgengni við fólk. Þurfa "miklir listamenn" að vera óalandi og óferjandi í samfélagi manna? Kannski er svarið "já" þegar samfélag manna er fjandsamlegt þeim sem sker sig úr svo um munar.

Kláraði svo Harðskafa núna rétt áðan og er ánægð með hana. Þægileg bók, snyrtilega myrk og býsna áhugaverð. Lítið um óreiðu hjá Arnaldi, vísindalega stefnuföst sköpun. Mér finnst honum takast að láta mann fá örlitla samúð með fyrrverandi eiginkonu aðalsöguhetjunnar, þessari beisku og hatursfullu konu sem eyðir orku sinni í að kenna Erlendi um allt sem miður hefur farið í hennar auma lífi. Það er ekki auðvelt að vinna úr höfnun og óendurgoldin ást getur sennilega gert næstum hvern sem er að drulluspólara í fortíðinni.

Hlakka svo til þegar ég verð frísk. Mín bíður haugur af verkefnum sem ég hef ekki haft heilsu til að sinna, staflar af óhreinum þvotti, tveggja daga uppvask, óleyst gáta um rotnunarlykt í eldhúsi, þvæld rúmföt, skattaskýrsla, ófrágengið dót í ferðatösku, vinnan mín í vinnunni og svo er brosið mitt týnt.

Börnin koma á morgun og þá kemur brosið mitt í leitirnar.

Engin ummæli: