þriðjudagur, desember 02, 2008

Menning klapp klapp klapp

Menningin ríður ekki við einteyming um þessar mundir, Hjálmar bauð mér í jólahlaðborð á föstudaginn, í Hagkaup um miðnætti á laugardaginn, í leikhús á sunnudaginn að sjá Skugga Svein í skemmtilegri uppfærslu Leikfélags Kópavogs, og svo röltum við á útgáfutónleika kórs Áskirkju áðan. Eitt skildi ég ekki, það var ekkert klappað fyrr en í lokin, mig langaði svo að klappa, en sat á mér. Kór Áskirkju er firnaflottur. Og þótt það hefði verið asnalegt að ég klappaði ein, þá hefði það ekki náð bjánaskapnum þegar Nokia-hringing dauðans ómaði hjá einum sauð í salnum, eða þegar eirðarlaus kjánakall marghnoðaði skránni sinni saman. Skrjáf getur verið ærandi. Og það ætti að banna þessa diririri-diririri-diririri-ding hringingu.

Merkilegt með Skugga Svein, mér skilst að ekkert leikverk hafi verið sett jafnoft á svið hér á landi, en samt hefur mér einhvern veginn tekist að lifa næstum fimm áratugi án þess sjá það. Eða...reyndar rámar mig í einhverja svart-hvíta Grasa Guddu í sjónvarpinu þegar ég var lítil. En það er ekkert að marka minnið, það man ekki neitt og svo er líka óralangt síðan ég var lítil.

Áfram á menningarlegu nótunum, á ég að hringja í RÚV og kvarta út af bindinu sem fréttaþulurinn er með um hálsinn? Það er allt of bleikt við þessa skyrtu.

Engin ummæli: