mánudagur, desember 29, 2008

Glyðruleg óþægindi á uppsprengdu verði

Í dag fór ég í búð á Laugaveginum að skipta mjög fallegum undirfötum sem ég fékk í jólagjöf, en hlýrar brjóstahaldarans voru mjóir og svolítið óþægilegir. Í umræddri búðarholu gaf að líta nærklæðnað, ilmvötn, blúnduverk, sjiffonsloppa, titrara og ágætt úrval fjaðraskrauts á geirvörtur en ekki eina einustu flík sem flokkast gæti sem ærleg brók. Engin brjóstahöld voru þarna undir 13 þúsund krónum og náttkjólgopa einn sá ég á 54 þúsund. Afgreiðslukonan var kuldaleg í framkomu, tattóveruð og þvengmjó. Hún leit á mig fyrirlitningaraugum þegar ég spurði hvort hún ætti ekki einhver "þægileg" undirföt. Djöfull leið mér eins og mest púkó konu í heimi.

Mig langaði að benda þessari hortugu horrenglu á að ekki væri gaddavír sem skerst inn í holdið hugmynd allra kvenna um góð undirföt, en mat aðstæður svo að það hefði ekki skilað neinu í þjóðarbúið.

Ef þessi okurbúlla verður ekki farin á hausinn eftir mánuð, þá skal ég hundur heita og éta köttinn minn í kaupbæti.

Engin ummæli: