Dreymdi þetta í nótt.
Var á ferð í bíl, keyrði greitt, talaði við vin minn í farsíma. Hvar sem ég fór gerðist eitthvað hrikalegt, t.d. hrundi stórt bjarg úr kletti við veginn um leið og ég keyrði framhjá. Endaði með fjöldaárekstri á Vesturlandsveginum, ég dúndraðist inní bílakös. Svo var ég allt í einu komin heim. Dösuð. Leit í spegil. Sá þá að út úr höfði mínu, fyrir aftan hægra eyra, stóð krani. Ég dró hann út og neðan úr krananum var rör sem hafði gengið í gegnum hausinn á mér þveran (þverhausinn). Það blæddi.
Ég hringdi í 112, sagði að ég hefði dregið blöndunartæki út úr höfðinu á mér og að það blæddi mikið. Að ég væri doldið slöpp. Maðurinn í 112 varð reiður og sagði mér að vera ekki að trufla Neyðarlínuna út af smámunum. Skellti á. Ég hringdi aftur og bað þrjá pólska verkamenn (sem lágu á gólfinu heima hjá mér) um að segja manninum í 112 að ég væri að segja satt. Verkamennirnir neituðu að staðfesta sögu mína, þótt ég sýndi þeim sárið og blóðug blöndunartækin.
Þá ákvað ég að spyrja norn, sem var geðlæknir, hvort það væri í lagi með mig. Var stödd í matarboði með henni. Hún hló að mér. Nornahlátri.
Vaknaði þyrst.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli