fimmtudagur, apríl 20, 2006

Sumar - komdu fagnandi

Hið ótrúlega hefur gerst, þessum erfiðasta vetri lífs míns lauk - eins og öllum öðrum vetrum. Og alltaf er maður jafn hissa. Megi sumarið færa ykkur gleði og gæfu elskurnar mínar.


Æska
Andvarinn vekur
vatnið um ljósa óttu,

eins vekur ástin
öldur í þínu blóði:

nýjar á hverri nóttu.
Einar Bragi (Í ljósmálinu, 1970)


Mynd án veggs
Ó í sumar þá ætlum við að synda í bláasta vatninu á Íslandi
og við skulum láta sólina þurrka okkur
og ég á að horfa á þig
en þú átt að horfa á vatnið

Jöklar
Á sumrin fagna jöklarnir heiðríkjunni
skína glaðbeittir heita sólskinsdaga
og ljúga okkur full.

Á veturna segja þeir satt
þá þurfa þeir ekki að látast
þeir falla inn í tíðarfarið.
Stefán Hörður Grímsson (Farvegir, 1981)

Engin ummæli: