Langar að kveðja þennan vetur með tveimur verkum Dags Sigurðarsonar, úr ljóðabókinni Níðstöng hin meiri (Rvík 1965). Mér finnst gaman að lesa Dagsverkin.
VEI ÞEIM
Vei þeim sem lendir í klandri og á ekki hreinar nærbuxur!
IN MEMORIAM
I
Þegar ég er orðinn gamall
og búinn að vinna
öll mín snilldarverk
og glapræði
ætla ég að setjast útí sólskinið
hlusta á suðið í flugunum
(ef ég held heyrn)
og minnast þess hve ilmurinn
af jörðinni var góður
þegar ég var úngur
og ástfánginn
Hve öllu hrakar
ætla ég að tuldra
og glotta tannlaust að því
hvað ég er orðinn gamall og vitlaus
II
Stundum verður rigning
Þá ætla ég að hýrast inni
á kvennapalli þamba kaffi
og segja lygasögur
Ég verð orðinn skrambi
flínkur að ljúga sögum
Það léttir manni brjóstþyngslin
III
Ég ætla alltaf að luma
á kandísmola og koníakslögg
og svo ætla ég að deyja
IV
Einhver kellíng einhversstaðar
til dæmis á Elliheimilinu
eða uppi í sveit
eða þá í útlöndum
ein af þessum seigu kellíngum
sem eru léttar á sér
alltframí andlátið
og lifna allar við
þegar kallmaður birtist í gættinni
ein af þessum gömlu skrukkum
sem hættu aldrei alveg
að hreyfa sig einsog úngar stúlkur
þótt þær barmafylltust lífsreynslu
mun segja:
Svoað hann var að fara garmurinn
Það er kanski best
Hann var orðinn svoddan ræfill
svo lúinn og gatslitinn
og kalkaður var hann líka
en þið hefðuð átt að sjá
hvað hann var myndarlegur í gamladaga
Engin ummæli:
Skrifa ummæli