fimmtudagur, ágúst 06, 2009

Skaupmáttarrýrnun

Nú er ég búin að semja marga pistla í huganum sem náðu að villast inn í myrkrakompu. Hugsanlega rekst ég á slökkvarann (kveikjarann?) einhvern daginn þegar ég er að leita að stjörnuskrúfjárni.

Eftir örstutt og snýtingasamt sumarfrí náði vinnan að gleypa mig, það er nú meira annríkið alltaf á Lansanum. Vill til að mér finnst gaman í vinnunni, dagurinn hleypur hviss-bæng-búinn. Best gæti ég trúað, að þegar allir hólarnir í Vatnsdal, eyjarnar á Breiðafirði og vötnin á Tvídægru hafa verið talin, teljist ég heppin að starfa við það að gera gagn. Ekki öfunda ég stropaða dúdda með stórar tölur í gráðugu höfði, þótt þeir eigi böns of monní sem þeir hamast við að borga ekki skatt af. Það verður hver að lifa með sínum gjörðum.

Auk þess óttast ég ekki klípuna. Hagvöxtur er fyribæri úr endaþarmi andskotans sem étur upp auðlindir jarðarinnar og traðkar á valdalausum manneskjum. Stríð, slys og aðrar hörmungar auka hagvöxt. Ég lýsi frati á heim sem getur ekki hugsað um neitt gáfulegra en hagvöxt. Og er ekki óþarfi að láta væl um einhverja "kaupmáttarrýrnun" draga úr sér kjarkinn? Hvað með það þótt við getum ekki keypt allt þetta drasl sem hvort sem er endar inni í geymslu/bílskúr/á haugunum? Pfft! Svartagall og dómsdagsraus er prýðilegt í hófi, en í óheftu magni dregur það allan mátt úr fólki. Er ekki kominn tími til að lyfta umræðunni á örlítið hærra plan? Er mögulegt að leggja frá sér bitra heykvíslina og tala um eitthvað annað en peninga? Ég sé í hillingum einn fréttatíma án lögfræðinga, hagfræðinga og formanns Framsóknarflokksins.

Hitti í dag mann með ýtuvaxinn fót en ákvað að hafa ekki orð á því við hann. Fannst óþarfi að núa honum upp úr hinu augljósa.

Engin ummæli: