Fór í klippingu og fékk þar mitt reglulega fix af slúðri, glansmyndum og rassvasasálfræði. Las þetta m.a.:
- Fólk með skuldbindingarfælni hefur lélega sjálfsmynd og telur sig ekki eiga félagann skilið
- Fólk með skuldbindingarfælni hræðist tilfinningalega nánd og er haldið sjálfseyðingarhvöt í sambandinu
- "Venjuleg manneskja" hugsar 50 þúsund hugsanir á dag (ekki tekið fram hvernig slíkt er talið). Bent er á að maður eigi að hætta að hugsa neikvætt um sjálfan sig, maður eigi að taka ábyrgð á eigin lífi og hætta að hræðast breytingar
O sei sei. Get tekið undir sumt af þessu. Annars erum við hárgreiðslukonan mín á barmi stórmerkilegrar vísindalegrar uppgötvunar. Þannig er mál með vexti að ég er með ákaflega sterkan sveip í hárinu, sem lætur hálfan toppinn standa beint upp í loftið. Róttækar aðgerðir duga ekki til að halda honum niðri. Við höllumst að því að þarna sé á ferð svokallaður "viagratoppur", sem beri að rannsaka. Hver veit nema í hársekkjum mínum leynist gullnáma?
Já, og fyrirsögnin er setning sem sonur minn, Matthías, lét út úr sér rétt áðan eftir að hafa tekið til í morgunkorns-skápnum og uppgötvað að þar voru sex tómir pakkar. Hann kvaðst hafa fjarlægt skikkju lyganna af herðum morgunkornsins. Ég hummaði bara og bað hann um að fara út með ruslið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli