miðvikudagur, janúar 31, 2007

Bikar horsins

Langar að þakka fyrir allar góðu afmæliskveðjurnar sem ég fékk í gær. Þær yljuðu mér um hjartarætur. Svo fékk ég frábærar gjafir, m.a. disk með "Stelpunum" sem ég er búin að hlæja að, hátt og snörlandi. Hef nebbla aldrei séð þessa þætti og greinilega misst af miklu.

Ligg annars enn heima í hroðalegri kvefpest. Undrast það magn af slími sem líkaminn framleiðir og tárast yfir eyðingu skóga. Hef nú þegar snýtt mér í pappír sem nemur ræktuðu landi á stærð við Jótland. Þetta kvef er arfavont fyrir vistkerfi heimsins.

Þankarnir hætta ekki að banka á dyr þótt hausinn fyllist af hori. Datt niður á náttúruvænni lausn en tissjú. Köllum hana NASAbikarinn. NASA vekur upp traustvekjandi hugrenningatengsl um vönduð geimefni ásamt því að vísa í samnefndar holur í andlitinu. Það má einnig stefna að lúxusútgáfu, Tví-NASAbikarnum (fyrir þá sem hafa ekki tíma til að færa á milli nasa).

Hugsa mér framleiðsluna í nokkrum stærðum og sennilega húðlita, en hver veit nema unga fólkið mundi vilja glaðværa liti? Sjáið fyrir ykkur börnin í skólanum, já, eða unga hressa fólkið sem vinnur í Kaupþingi: Í nösum þeirra glittir í grænar, bleikar eða jafnvel túrkísbláar totur (á milli tæminga).

Nú er bara að finna kjölfestufjárfesta, hönnuð og framleiðanda. Þekki mann sem á súkkulaðifabrikku. Það gæti hjálpað mér að komast í réttu kreðsana í atvinnulífinu.

Engin ummæli: