laugardagur, janúar 31, 2009

Eðlisfræði punganna

Nútímabörn eru teprur. Ásta leit skelfd á hrútspungana og sviðin, dró svo hettuna yfir höfuðið, fór með einhverja möntru* og starði einbeitt á litla rófustöppufjallið sitt. Hjalti hélt kúlinu, en borðaði ekkert nema flatbrauð. Matti sýndi karlmennskutilburði og bragðaði á hákarli (kúgaðist) og sviðum (átti bágt með að leyna viðbjóði sínum). Þorrablótið snerist upp í blót afkvæmanna: "Djöfull er þetta ógeðslegt!" "Fokk hvað þetta er krípí!"

Hjálmar bar sig mannalega og slafraði í sig auga með soghljóðum og slurpi og við það varð mér að orði: ég hef aldrei verið neitt fyrir augað. Seinna um kvöldið glopraði hann út úr sér að hann væri lítt gefinn fyrir þorramat. Hjálmar er tvímælalaust betri leikari en börnin mín.

Ójá, afmælismáltíðin lukkaðist glimrandi glæsilega, ég skemmti mér alltjént vel. Þorramatur er góður. Ég er kvikindi.


*skv. möntrunni hennar Ástu eru súrir hrútspungar "primitive cubic" (eðlisfræðilegt fyrirbæri, alls óskylt sauðfé)

Engin ummæli: