sunnudagur, nóvember 09, 2008

Valið vald og falið

Ég hef verið alveg bit yfir fjölmiðlaumfjöllun um mótmælin á Austurvelli. Hef mætt þarna alla laugardaga (utan einn, missti af Arnþrúði K, búhú). Trekk í trekk undrast ég fálæti fjölmiðla og skrumskælingu á því sem þarna er að gerast. Er það ekki fréttnæmt að mörg þúsund manns safnist saman á Austurvelli, hlýði á ræður og sýni samstöðu? Að þúsundir almennra borgara mótmæli aðgerðum og aðgerðaleysi stjórnvalda? Sjónvarpsfréttir RÚV í gærkvöld voru mér sár vonbrigði. Einblínt var á örlítinn hóp fólks sem henti eggjum í Alþingishúsið. Hvað með það þótt örvinglan, reiði og tilfinningahiti brjótist út á svona tímum? Er það eina fréttin hér?

Í athugasemdakerfi míns ágæta fyrrverandi lýsti ég undrun yfir fréttaflutningi af mótmælunum, og fékk afar gott komment frá Lönu Kolbrúnu Eddudóttur og leyfi ég mér að birta það hér (þekki Lönu ekkert og veit ekki einu sinni hvort ég má þetta):
Gravatar „Baun” var fljót að finna fréttapunkt dagsins. Fálæti fjölmiðla hvað varðar þátt hins almenna borgara í mótmælunum.

Hvers vegna taka meira að segja RÚV-arar þátt í að gera lélegar og misvísandi fréttir af fundinum á Austurvelli í dag, sem var STÓRFRÉTT.

Hvar eru t.d. hljóð- og mynd-upptökurnar af því þegar mannfjöldinn blístrar og æpir, æ ofaní æ, og hristir mótmælaspjöld sín til samþykkis orðum Sigurbjargar og Einars Más (dj. er hann góður). Hvar eru bútarnir úr ræðum dagsins og viðtölin við venjulega fólkið sem mætti þarna í hrönnum?

Hvar eru myndskeiðin þar sem panað er almennilega yfir mannfjöldann, til að áhorfendur fái tilfinningu fyrir mætingunni og stemningunni - og hverjir voru þarna. Bara einblínt á unga fólkið og anarkistana, egg og reykspól, að ógleymdum Geir Jóni sem var nú bara í vinnunni... sorrí, en ekki var hann að mótmæla.
Fjölmiðlarnir eiga að endurspegla samtímann og þarna bregðast þeir, líka krosstrén. Fer að halda að einu raunverulegu umræðuna sé að finna á netinu, þótt þar séu æði misjafnir flugfiskar á sveimi. Reyndar eru undantekningar á dugleysinu, því Víðsjá er vissulega fínn þáttur og oft beittur. Og svo er þessi fjölmiðill ferskur, lesið hann!

Engin ummæli: