sunnudagur, nóvember 09, 2008

Stolt

Nú er ég snortin, nýkomin af tónleikum Unglistar í Norræna húsinu. Þar mátti sjá og heyra ungt fólk leika á hljóðfærin sín og syngja. Hef alltaf dáðst að þeim sem geta staðið fyrir framan fullan sal af fólki og sungið. Söngröddin kvik, ber og viðkvæm. Afhjúpandi. Ung rauðhærð stúlka í blómapilsi söng þetta fallega ljóð Jónasar, við lag Atla Heimis.

Smávinir fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley, við mættum margt
muna hvort öðru að segja frá.
Prýðið þér lengi landið það,
sem lifandi guð hefur fundið stað
ástarsælan, því ástin hans
allstaðar fyllir þarfir manns.

Vissi ég áður voruð þér,
vallarstjörnur um breiða grund,
fegurstu leiðarljósin mér.
Lék ég að yður marga stund.
Nú hef ég sjóinn séð um hríð
og sílalætin smá og tíð. -
Munurinn raunar enginn er,
því allt um lífið vitni ber.

Faðir og vinur alls, sem er,
annastu þennan græna reit.
Blessaðu, faðir, blómin hér,
blessaðu þau í hverri sveit.
Vesalings sóley, sérðu mig?
Sofðu nú vært og byrgðu þig.
Hægur er dúr á daggarnótt.
Dreymi þig ljósið, sofðu rótt.

Smávinir fagrir, foldarskart,
finn ég yður öll í haganum enn.
Veitt hefur Fróni mikið og margt
miskunnar faðir. En blindir menn
meta það aldrei eins og ber,
unna því lítt, sem fagurt er,
telja sér lítinn yndisarð
að annast blómgaðan jurtagarð.


Ásta mín spilaði Khatsaturian á klarinettið með félögum sínum í tríóinu og þau gerðu það vel. Mjög vel. Ég var svo stolt.

Fór að hugsa um stolt. Alltaf verið stolt af börnunum mínum og aldrei dregið fjöður yfir það. Og þegar ég heyrði ungu stúlkuna syngja úr Hulduljóðum og Dalvísu fann ég fyrir annars konar stolti, þjóðarstolti. Jafnframt örlaði á samviskubiti. Er lítt höll undir þjóðrembu, en er þjóðarstolt slæmt? Hef haft það á tilfinningunni að þjóðarstolt sé "pólitískt ókorrekt", en er það endilega svo? Hef verið svo örg út í landið mitt, eða réttara sagt þá sem hér hafa ráðið ferðinni, fjárglæframenn og hryggleysingjar í ríkisstjórn. Hef skammast mín fyrir að vera Íslendingur. Skammaðist mín fyrir hroka og oflæti fámennrar forréttindastéttar. Skammaðist mín fyrir gildismat sem byggðist á sýndarmennsku og bruðli. Skammaðist mín fyrir óréttlætið, misréttið, peningadýrkunina.

En það má ekki missa sjónar af því sem er gott. Má ekki gleyma þeim sem erfa landið. Má ekki gleyma mosa, hrauni, fossum, heiðum, jöklum, sjávarangan, svörtum sandi og lóukvaki. Má ekki láta frjálshyggjuriddarana halda áfram að prédika um hagvöxt og segja að nú verði að virkja öll óbeisluð fallvötn, annars...já, annars hvað? Höfum í huga "gagnið" sem það hefur gert þjóðinni að hlusta á falskan frjálshyggjusönginn.

Ég vil ekki beisla vötnin, heldur markaðinn og græðgina. Ég vil tilheyra þjóð sem á skilið að búa í þessu óendanlega fallega landi. Og ég vil vera stolt.

Engin ummæli: