mánudagur, nóvember 24, 2008

Grjótið á vefnum

Það er svo margt að berjast um í kollinum á mér, sjaldan verið jafn lifandi. Nýkomin af borgarafundi í Háskólabíó, þar var mögnuð stemning. Ef einhver hefði sagt við mig fyrir tveimur mánuðum að ég fengi brennandi áhuga á þjóðmálaumræðu og legði á mig, svona kvöldsvæf baun sem ég er, að fara á pólitíska kvöldfundi af einskærum áhuga, þá hefði ég sagt við hann: Kanntannan?

Svo var ég að horfa á Evu í Kastljósinu, sá hana taka lögguræfilinn í bakaríið. Ef hugrekki og heiðarleiki komast einhvern tímann í tísku, þá verður Eva svölust, hún verður Coco Sorcière.

Í gær var ég döpur og miður mín, hreinlega dofin, vegna þess óhroða sem fólk bar á borð í kommentakerfi Önnu.is. Það er ofar mínum skilningi að fólk skuli geta lesið um hrikalegar þjáningar barns og fundið sig knúið til að drulla yfir áhyggjufulla móður, með fordæmingu, ásökunum og illgirni. Þætti fróðlegt að vita hvort þetta óuppdregna lið sem spúði eitrinu yfir Önnu, viti alltaf nákvæmlega hvar unglingar þess eru og hvað þeir eru að gera. Dóttir Önnu vann sér það eitt til saka að taka afstöðu, mótmæla ranglæti, og hvorki hún né Anna fóru um með ofbeldi. Það gerðu reyndar fæstir sem staddir voru við lögreglustöðina þetta kvöld.

Og má ég nú heldur biðja um einn ungling með réttlætiskennd, en tíu sinnulausar gelgjur sem hugsa bara um að vera krútt.

Engin ummæli: