laugardagur, nóvember 01, 2008

Hræringar geðs og herðablaðs

Í gær kvaddi ég vinnufélaga mína til 15 ára. Þetta var tilfinningaþrunginn dagur, fólk sýndi mér ótrúlegan rausnarskap og hlýju, ég var föðmuð, kysst og leyst út með fallegum gjöfum. Og já, ég var með ólæknandi kökk í hálsinum, brostna rödd og tárvot augu. Full þakklætis og geðshræringar.

Eftir síðasta vinnudag á Reykjalundi skellti ég mér í nudd hjá Hugskotinu sem togaði af mér hægra herðablað og skilaði því svo aftur á sinn stað. Nuddaði líka úr mér stífleika og spennu sem hafði rúllast upp í óklæðilegan herðakistil. Nuddið var vont/gott og svo meira gott/gott eftirá. Hugskotið er framúrskarandi nuddari.

Ég hafði fengið lánaðan bílinn hennar mömmu og þegar ég og herðablaðið ætluðum að keyra af stað eftir nuddið, stödd lengst uppi í Breiðholti (en þangað reyni ég að fara sem minnst, villist alltaf og hafði einmitt lent í því þarna rétt áður og þurft að hringja á hjálp), þá kom ég bílnum ekki úr "park". Reyndi og reyndi, ýtti á ýmsa takka, drap á bílnum, ræsti hann aftur og ekkert gekk. Hringdi heim til mömmu og pabba.

baun: mamma, ég kem bílnum ekki í gír, hann er fastur í park, hefur það komið fyrir hjá þér?
mamma: nei, það hefur aldrei komið fyrir! en hræðilegt!
baun: hvað á ég að gera? ég er búin að ýta og ýta og get ekki bifað stönginni.
mamma: bíddu, ég spyr pabba þinn.

(ég heyri í fjarska að pabbi segir eitthvað um "bremsuna")

mamma: ýttirðu á bremsuna?
baun (ræsir bílinn einu sinni enn og ýtir á bremsuna): já! þvílík snilld, nú gat ég sett hann í dræv.

Þegar ég skilaði bíllyklinum um kvöldið, glotti pabbi við tönn og spurði hvort ég væri með bílpróf. Sniðugur kallinn.

Engin ummæli: