laugardagur, nóvember 01, 2008

Víkingar, minn rass!

Áfram spyr ég eins og rassálfur: Af hverju mæta ekki fleiri á mótmælafundi, af hverju er stjórn SÍ enn við völd, af hverju gerir almenningur ekki rassgat? Erum við svona spéhrædd upp til hópa?

Þótt maður sé ekki aðdáandi allra þeirra sem skipuleggja fundina, sé ekki endilega sammála anarkistunum með svörtu fánana, geti ekki skrifað undir hvert einasta orð þeirra sem stíga á stokk - þá er þetta þó fólk sem lætur skoðanir sínar í ljós og stendur við þær. Djöfull sem mér leiðist þýlyndið og skapleysið. Ætlum við endalaust að láta bjóða okkur hvað sem er? Hrikalega háa skatta og matarverð, ljúgandi duglausa stjórnmálamenn, spillta valdhafa makandi krókinn og illskiljanlegt bruðl fámenns hóps forréttindapakks. Ætlum við endalaust að láta segja okkur að VIÐ eigum sök á strandinu af því að VIÐ lifðum um efni fram? Plottuðum VIÐ svikamyllur Icesave og Edge og hvað það heitir gillemojið sem hefur gert börnin okkar að skuldsettum glæpamönnum í Bretlandi, Hollandi, Finnlandi og víðar?

Listamenn láta í sér heyra, t.d. Björk, með hugmyndir um fjölbreytta atvinnustarfsemi í stað virkjanabulls álmenna. Hörður Torfa og Einar Már þora að standa fyrir fundum þar sem almenningur fær rödd - en hvar eru háskólamennirnir? Hvar eru stjórnmálamennirnir? Langbesta ræða fundarins í dag á Austurvelli kom frá dúdda sem heitir Lárus Páll Birgisson. Hann er sjúkraliði,"starfsmaður á plani", eins og hann sagði sjálfur. Lárus Páll og Pétur Tyrfingsson minntu okkur á mikilvægasta tæki almennings. Samtakamáttinn.

Auðvitað á maður ekki að vera hissa á því að samfélag sem sefur vært við misrétti og vaxandi ójöfnuð liðist sundur. En að allt skuli gerast svona hratt, það er sjokk. Og nú er fjandakornið kominn tími til að við mótmælum öll, látum í okkur heyra, vöknum.

Engin ummæli: