mánudagur, nóvember 17, 2008

Óþarfauppboð baunar

Ég játa á mig kaup gagnslausra hluta í gróðærinu. Eigi hyggst ég gráta það öllu lengur, heldur efna til uppboðs.

Í dag býð ég þessa tvo hluti, litlu brúnu könnuna og græna ólívubátinn, í skiptum fyrir eitthvað af þínu heimili sem er að minnsta kosti jafn tilgangslaust.
Litla brúna kannan er á að giska 5 sm há, eða á hæð við tannstöngul. Tilgangur könnunnar í þessu jarðlífi er ókunnur.

Litli græni ólívubáturinn er framleiddur til ákveðins brúks, og því má segja að hann nái varla upp í að vera alger óþarfi, þótt hann reyni. Í græna ólívubátinn má raða fimm ólívum, en það er hentugt í fimm manna matarboð þar sem öllum nema þér þykja ólívur vondar.

Tilboð óskast. Minn óþarfi á móti þínum óþarfa. Þitt gagnslausa dót á móti mínu gagnslausa dóti. Sendið mér tölvupóst eða freistið mín í athugasemdakerfinu. Allt tekið til greina (nema gagnslausir eiginmenn, stjórnmálamenn og öskubakkar).

Þið eigið leik.

Engin ummæli: