mánudagur, desember 12, 2005

Spennufall...

er yfirvofandi. Og rafvirkinn getur ekki mætt fyrr en eftir áramót. Hvað gerir maður við upphlaðið stress, brjálaðar tilfinningar, bilaða álagsvinnu og nokkrar afgangs spýtur? Reyndar búin leysa spýtnavandamálið, búin að koma þeim flestum í fóstur á góð heimili - en get ég lokað augunum fyrir því að síðustu spýturnar sem ég lét frá mér fóru austur fyrir fjall þar sem þeirra bíður svangur arinn? Nei, ég held ekki.

Vorum áðan í móttöku á vegum menntamálaráðherra í Þjóðmenningarhúsi. Flott hús og prýðileg athöfn þar sem mönnum mæltist vel. Þetta var síðbúin heiðrun skáksveitar Laugalækjarskóla, en þeir urðu Norðurlandameistarar í haust. Var bara sallafínt. Matti stendur nú frammi fyrir snúnu vandamáli: á hvoru heimilinu skal geyma allar medalíurnar og bikarana? Það getur verið flókið að eiga tvö heimili, en þetta glíma börnin mín við í dag. Þau munu leysa það mál með glans, enda er þeim ekki fisjað saman. Litlu hetjurnar mínar.

Engin ummæli: