sunnudagur, desember 04, 2005

Ótímabær andlátsfregn.

Ofnasagan heldur áfram. Á föstudaginn ræddi ég við tjónamann hjá VÍS. Hann benti mér á að tala við pípara sem byggi í næsta húsi við mig, "hann er fínn og vinnur stundum fyrir okkur". Tjónamaðurinn sagði að ég gæti hringt í þennan pípara hvenær sem er. Gott og vel, ég hringdi í manninn og fann strax að þetta var óvenjulegur karakter, hann vildi t.d. miklu frekar ræða við mig um heilsufar fyrri íbúa hússins en ástand ofnsins míns. Einnig virtist hann nokkuð vel að sér um ættfræði.

Píparinn mætti á tilsettum tíma og var við aldur, eins og mig grunaði. Hann var með mikið og úfið hár, þungur á brún, talaði með grófum róm og var eins líkur sjóræningja og nokkur maður getur verið án páfagauks á öxl. Hann dragnaðist draghaltur upp tröppurnar og stóð svo á stofugólfinu mínu og mændi ástúðlega á ofninn.
Því næst kom löng ræða um hvað svona ofnar væru nú góðir og entust í 200 ár, en væru þó ótrúlega viðkvæmir - ef menn ýttu t.d. við þeim þegar þeir væru að leggja parket (blimskakkaði augum reiðilega á smiðina mína sem stóðu hnípnir hjá).

Síðan lýsti hann ofninn minn látinn. Og löngum og flóknum aðgerðum til að fyrst soga vatnið af ofninum (með sérstakri sugu) og síðan losa mig við líkið (sem hann sagði a.m.k. 150 kg) og svo redda mér nýjum ofni (þeir eru örugglega ekki til) og svo pípara til að tengja ofninn (vonlaust). Aðgerðir Forn-Egypta við að varðveita lík og bygging píramídanna – leikur einn miðað við það að losa sig við þennan ofn og fá nýjan. Píparinn bauðst ekki til að aðstoða við eitt eða neitt. Kom því að fimm sinnum að vera ekkert að blanda tryggingunum inní þetta, sjálfsábyrgðin væri svo há - "það borgar sig ekkert fyrir þig".

"Athyglisverður nágranni" hugsaði ég með mér þegar sjóræninginn/píparinn skakklappaðist niður tröppurnar tautandi, "það borgar sig ekkert að vera að flækja Þeim í þetta".

En...smiðirnir mínir knáu hafa ráð undir rifi hverju. Þeir kölluðu til aðra pípara sem kíktu á ofninn minn. Þeirra lausn var önnur. Láta renna á fullu í ofninn, kynda hann í botn og sjá til hvort lekinn (sem var örlítill) lagaðist af sjálfu sér. Þetta erum við nú að prófa og það hefur ekki komið dropi úr ofninum. 7,9,13.

Nú bíð ég spennt og vona að ofninn haldi í sér í 100 ár í viðbót.

Engin ummæli: