þriðjudagur, desember 13, 2005

Á leiðinni heim...

úr vinnunni, í Ártúnsbrekkunni, tók ég allt í einu eftir öllum ljósunum. Öðrum megin hvít perlufesti og hinum megin rauð - endalausar raðir iðandi ljósa. Og öll þessi hús, upplýst. Fór að hugsa um fólkið í húsunum og bílunum. Allir svo uppteknir af sjálfum sér og eigin vandamálum. Eins og ég. Hversdagslífið gleypir mann, svei mér þá, og spýtir manni svo beint í kistuna. Búmm. Og maður hamast alla leið. Mér finnst ég stundum lifa á ósköp litlu svæði, næstum eins og Randi dverghamstur (sem þið þekkið öll og elskið). Hann býr í litlu búri með bláum botni, þar er skál með vatni, önnur með mat, sag á gólfi, lítið svefnhús og hjól til að hlaupa í. Auk þess er heimur Randa gul plastkúla. Þar hleypur hann um eins og vitleysingur og er nú óðum að kynnast nýja heimilinu, aðallega með því að reka sig á. Svoleiðis lærir maður (hamstur) auðvitað best.

Engin ummæli: