miðvikudagur, mars 22, 2006

Ég, frelsisstyttan

Á mánudaginn fór ég á fyrirlestur Andra Snæs Magnasonar og hitti tvær kollegur mínar. Sat á milli þeirra og krumpaðist af innri sælu og fögnuði yfir mælsku og leiftrandi greind Andra.

Stallsystir mín önnur skondraði á mig augum og sagði að ég liti svo rosalega vel út. "Það er frelsisljómi yfir þér." Hún hélt því fram að það væri vegna þess að ég væri fráskilin. Ég var svolítið hissa en tók hólinu af alkunnri hógværð. Er einfaldlega lang lang lang lang hógværasta manneskja sem ég þekki, og þótt víðar væri leitað.

Fór áðan að hugsa um meintan frelsisljóma. Það er nú ekki eins og ég hafi verið gift einhverjum axarmorðingja í 22 ár, hann Pétur minn er sennilega besti maður sem ég á eftir að kynnast á lífsleiðinni. En ég þráði að standa á eigin fótum. Svona er ég skrítin kona.

Og hér stend ég í dag. Bauna-frelsisstyttan. Fyrrverandi var mitt Frakkland. Og ég í mynni New York hafnar. Manhattan steinsnar í burtu. En af hverju er ég með þetta teina-fyrirbæri á höfðinu? Getur einhver sagt mér það? Eru þetta geislar? Doldið pönkaralegur höfuðbúnaður, jafnvel hættulegur ef maður vill eiga í nánum samskiptum við annað fólk. En kyrtillinn er ósköp þægilegur.

Nú er bara að læra að halda á kyndlinum og brenna sig og aðra sem minnst.

Engin ummæli: