föstudagur, mars 03, 2006

Heimskulegar spurningar

Ég er með tremma fallegar tær, nettar og vel skapaðar. Þær eru einstakar (ekki samvaxnar). Ákvað að bjóða tánum og helstu fylgihlutum upp á fótsnyrtingu um daginn. Það er svo gott að láta dekra við tásurnar. Ég reyndi að halda uppi smá spjalli við ungu, fallegu snyrtistúlkuna sem vann verk sitt af alúð. Spurði hana hvort siggið mundi halda áfram að vaxa endalaust ef maður léti ekki raspa það af. Hvort maður yrði þá hærri í loftinu og þyrfti stærra númer af skóm. Hún taldi það ekki ólíklegt. Svo spurði ég hana hvort einfættur maður fengi 50% afslátt. Hún svaraði mér grafalvarleg í bragði að hún þyrfti að spyrja yfirmann sinn að því.

Eftir snyrtinguna sveif ég léttfætt í Bónus. Keypti mér gúmmíhanska. Þegar ég kom heim og ætlaði að smella þeim gulu á mig, uppgötvaði ég að það var búið að fjarlægja hægri hanskann úr pakkanum. Að sjálfsögðu datt mér strax í hug einhentur ræningi.

Sýnir að maður á ekkert að vera að gaspra um hlutina.

Engin ummæli: