þriðjudagur, júní 05, 2007

Segðu mér Darwin, lifa hinir fyndnustu af?

Í háskólanámi ytra skrifaði ég lærða ritgerð um skopskyn og skerta möguleika fólks í öðru málsamfélagi á að taka eðlilegan þátt í samskiptum við "innfædda" vegna máltengdrar húmorsröskunar. Húmor er nefnilega margslungið kvikindi. Húmor þróast, bæði í sögulegu samhengi og ekki síður frá vöggu til grafar. Húmor er spegill á samfélag og lifnaðarhætti, viðhorf og fordóma. Húmor byggist á sameiginlegum bakgrunni skopgjafa og skopþega. Húmor á það til að vera sorglega einstaklingsbundinn.

Sjálf kann ég aðeins tvo brandara, annan langan og hinn stuttan.

Fyrir framan mig liggur bók, Íslenskar þjóðsögur og sagnir, gefin út árið 1958. Í þessu riti hefur verið safnað saman hinu og þessu, þar til gerðum rímum fyrir "eldri menn, verur og dýr", þulum um "guðrækni og góðsemd", "háðsögum og gráu gamni" svo fátt eitt sé nefnt. Það sem vekur sérstaka athygli mína eru gátur sem vafalaust hafa þótt bæði drepfyndnar og snjallar árið sem olían fraus. Þær eru settar upp þannig að fyrst kemur svarið og svo gátan, svolítið eins og spurningaþátturinn Jeopardy sem ég kynntist í landi Bush-manna. Hér kemur smá sýnishorn:

Kirkja séð af hestbaki
Hvenær sástu kirkjuna alsetna af hestsbeinum?

Karl og Fjara kerling
Karl kom inn að morgni og mælti: "Nú er flóð, Fjara."

Svo ætla ég að sýna ykkur eina enn, en geyma lausnina þar til síðar. Giskið nú:

Hvort viltu heldur það sem loðið er, eða það sem snoðið er?

Íslensk fyndni eins og hún gerist best.

Engin ummæli: