Helgin, helgin....mikið fín.
Á föstudaginn kvaddi ég strákana mína, en þeir eru lagðir upp í langferð með föður sínum. Til allrar hamingju átti ég stefnumót um kvöldið við Hugskot. Dugði það dável til að bægja frá mér óyndi, enda er Hugskotið skemmtileg manneskja. Drukkum freyðivín, fórum út að borða og síðan á Ölstofuna, þar sem stóðu 75 manns fyrir utan að reykja, og inni sátu 5 hræður. Huggulegt. Stúderuðum veggteppi og aðra skrautmuni, einnig fulla skáldkonu. Hjá okkur settust þrír menn og einn þeirra átti EFNALAUG. Það átti víst að fá okkur til að gapa af aðdáun.
Laugardagurinn var letilegur þar til ég reif mig upp og þrammaði alein á Esjuna. Keyrði síðan í sveitina til Rúnu vinkonu. Hjá henni er alltaf gott að vera. Borðuðum framúrskarandi mat, drukkum rauðvín og fórum í miðnæturfrisbí, í stafalogni og undir vökulum augum tveggja hrossa. Hlaut ég við sveifluna allnokkur íþróttameiðsl, brotna nögl og rispað naglalakk.
Í dag er annar í leti. Bráðum kemur bróðir minn í heimsókn. Ætla að gefa honum kanilsnúða.
Legg ekki meira á ykkur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli