þriðjudagur, ágúst 19, 2008

Svona er hún inní

Svona er hún inn við beinið, bilaða tölvan. Frómt frá sagt hef ég aldrei ígrundað innviði þessa fyrirbæris, sem orðið er algengara á heimilum landsmanna en heimasími. Eins og glöggir menn sjá gat Hjálmar bjargað af harða diskinum öllum gögnum sem gagn gera. Svo ætlar þetta annálaða snyrtimenni að strauja líka. Tölvuna altso.
Á ég að vera afbrýðisöm? Sjáið hversu blíðlega hann horfir á hana. Þessa druslu.

Hjálmar útskýrði margt fyrir mér um tölvur. Það er hægt að vita heilan helling um þetta mál. Mér finnst móðurborð t.d. afar fallegt orð. Örgjörvi rausnarlegt. Skjákort skondið. Tengikví geimvísindalegt. Og kæliplata minnir mig á tyggjó.

Ég sver við efri vör Huggýjar að ég tók eftir öllu sem hann sagði.

Engin ummæli: