miðvikudagur, ágúst 13, 2008

Bilerí og óskiljanlegur skortur á súpukjöti

Eldaði kjötsúpu í fyrradag og bakaði fjallagrasabrauð og var því vel tekið af fjölskyldunni, enda börnin mest fyrir "heimilislegan" mat (sem minnst kryddaðan og helst soðinn). Komst að því að súpukjöt er ófáanlegt úr kjötborðum matvöruverslana og neyddist til að kaupa rándýrar sneiðar úr framhrygg í súpuna. Mér finnst að maður eigi að geta fengið bæði súpukjöt og smásteik úr kjötborðum, hvert stefnir heimurinn eiginlega?

Annars gengur einhver óáran yfir heimilið þessa daga. Sem dæmi má nefna tíðar bilanir:
  • Flugnaspaðinn minn rafmagnaði eyðilagðist, nú þegar geitungar eru sem mest að ofsækja okkur. Hata þessi kvikindi.
  • Klósettkassinn var sprunginn, það var alltaf vatn á gólfinu og versnaði stöðugt. Við fundum loks upptök lekans með því að beita kungfu brögðum og grænum matarlit. Unnustinn (ljómandi handlaginn) setti upp nýjan kassa í gær sem við keyptum í Byko fyrir ærið fé.
  • Sótti bílinn úr viðgerð í gær, það fór í honum háspennukefli og fleira. Bifvélavirkinn spurði hvort ég vildi eiga gamla keflið en ég afþakkaði og sagði að það yrði í besta falli ljótur blómavasi.
  • Heimilistölvan hrundi í fyrradag, harði diskurinn er trúlega ónýtur og þar fóru myndir og annað persónulegt stöff fyrir lítið. Ég átti bakköpp af flestum skjölunum, en ekki myndunum.
  • Góða skapið er búið að vera brokkgengt en ég held að það hafi hrokkið í þýðan gang í kvöld, því við örkuðum á Skálafell í sérlega fallegu veðri.
Auk þess legg ég til að hallóskan verði lögð í eyði, meira bileríið á þeim bænum alltaf.

Engin ummæli: