þriðjudagur, ágúst 05, 2008

Þvottaráð óskast

Yngri sonur minn hefur dálæti á hvítum fötum. Það veldur aldraðri móður hans ýmsum erfiðleikum í þvottalegu tilliti. Varla er hægt að hengja hvíta spjör út á snúru án þess að fá í hana grátt klemmufar, pöddugubb eða malbikshnerra.

Lenti í því að fá blátt naglalakk í falleg drifhvít sængurföt (það mál er ótengt syni mínum). Hvernig næ ég naglalakki úr líni? Á ég að þora að nudda það upp úr asetoni, kámast ekki allt út?

Að öðru. Í dag leið mér eins og aula. Fór með úrið mitt til úrsmiðs til að fá nýja rafhlöðu og þegar ég sótti það var mér sagt að rafhlaðan væri í fínu lagi. Úrið hafði stoppað af því að takkinn var útdreginn. Úrsmiðurinn hefði hæglega getað ýtt takkanum inn og rukkað mig um nýtt batterí. En hann gerði það ekki. Sætt af honum.

Jæja, ætla að tölta út í búð og kaupa fisk. Þið getið sveiað ykkur upp á að það verður hvorki ýsa né plokkfiskur.

Góðar stundir.

Engin ummæli: