laugardagur, ágúst 23, 2008

Hjólatúrinn og kúltúrinn

Í dag hafa kúltúrstraumar runnið niður andlitið á mér í bland við regnið. Hluti menningarinnar fór innfyrir augnlokin og hluti rigningarinnar gerði mig rassblauta á hjólinu.

  • Rákumst á þennan risavaxna pappírsmann í húsasundi. Eldri kona, sem sagðist vera móðir ljóðskálds, bar á hann lím af miklum dugnaði en vildi ekki leyfa mér að taka mynd af sér.
  • Fórum á Prikið og fengum okkur franskar með tómatsósu. Fyrir ofan barinn hékk miði sem á stóð: Herbert Guðmundsson skuldar.
  • Sáum þrjár mótorhjólalöggur háma í sig nammi og hlæja dátt.
  • Hittum vinkonu mína ljóðskáldið í bakgarði við Ingólfsstræti. Þar fékk ég í hendur eintak af nýútkominni bók hennar, Uppsveifla/Niðursveifla. Hlakka óstjórnlega til að hreiðra um mig á uppáhaldsstaðnum og lesa bókina. Til hamingju Hugskot! Mig langar að verða eins og þú þegar ég verð stór (lesist fimmtug).
  • Skipulagður göngutúr í Hólavallargarði var bæði fróðlegur og skemmtilegur. Ég sá draug, svartklædda konu, sem starði illilega á mig. Kannski það hafi verið hún sem hrinti mér um daginn. Ég elska þennan kirkjugarð.
Nú ætlum við að fá okkur fiskisúpu, svo förum við aftur á stúfana og drekkum í okkur enn meiri menningu, allt þar til himinninn springur út yfir sjónum.

Engin ummæli: