laugardagur, maí 07, 2005

6.B

hélt upp á 30 ára útskriftarafmæli sitt úr barnaskóla, reyndar ári á eftir áætlun. Undarlegt var að sjá andlitin aftur, sum hafði ég ekki séð í 30 ár. Þekkti samt alla, nema Guðmund, sem var ekki Guðmundur heldur einhver Finni sem prakkari bekkjarins hafði smyglað inn á samkunduna. Ég fattaði ekki að þarna væri maður að villa á sér heimildir fyrr en hann stóð upp (allir áttu að kynna sig) og söng lítið lag á finnsku.

Kópavogsskóli virðist þarna hafa alið af sér óvenju venjulegt fólk. Enginn hefur skarað fram úr, orðið frægur, lent á forsíðu DV eða í fangelsi; enginn hommi, enginn rosa feitur og engin lesbía. Allir ósköp indælir og litu bara vel út. Flestir eiga 2-3 börn og hafa haldið sig við sama makann í um 20 ár. Tveir eða þrír höfðu lent í baráttu við Bakkus og voru á snúrunni og má segja að það hafi verið það æsilegasta (fyrir utan gaurinn sem var útfararstjóri, smá stíll yfir því). Einhver gæti ímyndað sér að þetta hafi verið fremur dauf samkoma. Það er skoðun út af fyrir sig. Ég held reyndar að heimurinn væri síst verri þótt í honum væru fleiri 6.Bjéar. Alla vega fæ ég ekki séð að aðalvandi heimsins stafi af offjölgun indælisfólks.

Engin ummæli: