laugardagur, maí 14, 2005

Sorpa...

er himneskur staður, staðgengill skriftastóls í kaþólsku. Maður kemur í Sorpu drekkhlaðinn dóti, þungstígur, samviskubitinn, álútur. Svo er bara - halelúja - gámur fyrir hvert item - allt þetta drasl sem lengi vel nartaði í sálu þína. Staður fyrir góðar fyrirætlanir sem runnu út í sandinn - sá þreytulegan mann hefja þrekhjól upp fyrir ístruna og kasta því í Rauða kross gám. Voru þetta brosviprur á andliti hans eða áreynslugretta? Er ekki viss. Í Sorpu er staður fyrir hjól sem ryðguðu úti í vetur, af því að eigendurnir nenntu ekki að fara með þau inn í skúr, og hver lítill ryðblettur hlóðst utan á samviskuna og þyngdi. Uppþvottavélin ruddist með látum ofan í ginnungagap, að fengnu leyfi hjá mildilegum staðarhaldaranum sem var ekki í hempu, heldur skítugum bláum samfestingi. Fernur í litla gáminn, skór í tunnu; 10 tonn af dagblöðum - sprilljón orð - hurfu í risavaxinn bláan kjaft. Og 15 tonn af fötum. Veit ekki hversu mikinn greiða maður gerir þriðja heiminum með því að sturta á hann öllu þessu gamla flísi. Föt fyrir fátæka fólkið eru léttvæg yfirbót þegar maður er dauðfeginn að losna við þau. En hver veit, kannski á við hálfa Maríubæn?

Svo sest maður upp í bílinn. Léttur, hress, búinn að losa. Tilbúinn að takast á við þaulæft hlutverk neytandans á ný - og fylla allt af nauðsynjum og sjálfsögðum hlutum.

Engin ummæli: