miðvikudagur, september 07, 2005

Langalangalangamma mín...

hét Guðný Jónsdóttir, betur þekkt sem Guðný frá Klömbrum. Hún fæddist í Hörgárdal árið 1804 og lést á Raufarhöfn árið 1836. Banamein hennar var ást.

Maður Guðnýjar var séra Sveinn Níelsson. Hann yfirgaf Guðnýju eftir átta ára hjónaband og olli skilnaðurinn henni slíkum harmi að hún veslaðist upp og dó.

Sveini var lýst svo: "Sveinn var með afbrigðum glæsilegur maður, hár, herðibreiður og svipmikill. Hann var skapstór, stilltur, en þykkjuþungur. Nokkuð þótti hann viðkvæmur fyrir sjálfum sér og jafnvel hégómagjarn." Guðnýju var lýst svo: "Guðný var smávaxin og fínbyggð og meira hneigð til söngs, ljóðagerðar og bóklesturs en búsýslu.... Hún var annáluð fyrir góðsemi sína og hjartahlýju." Um samskipti þeirra hjóna segir svo: "Ekki munu hjónin hafa verið skaplík, og sagnir eru til um árekstra í hjónabandi þeirra. Bera þær sagnir það með sér, að þrátt fyrir gáfur og menntun séra Sveins hafi Guðný verið honum snjallari á ýmsum sviðum....Bæði hjónin ortu ljóð og vísur, en ekki lék á tveim tungum, hvort þeirra var snjallara á því sviði. Viðkvæmni Sveins vegna andlegra yfirburða konu hans verður aðeins skilin sem afleiðing af stolti hans og óvenjulegri tilfinningasemi fyrir sjálfum sér." (Guðnýjarkver, 1951)

"Sit ég og syrgi" eftir Guðnýju frá Klömbrum.

Sit ég og syrgi mér horfinn
sárt þreyða vininn,
er lifir í laufgræna dalnum
þótt látin sé ástin.
Fjöll eru og firnindi vestra
hann felst þeim að baki.
Gott er að sjá þig nú sælan,
þá sigrar mig dauðinn.

Heldur var hart þér í brjósti,
að hót ei nam klökkna,
er sviptir mig samvist og yndi,
mér svall það um hjarta.
Horfið var mál það af harmi,
er hlaut þig að kveðja,
sárt réð þig gráta úr garði,
eg græt þig til dauða.

Leiðast mér langvinnir dagar,
en lengri þó nætur,
heims er því horfin öll kæti,
til himna vill sálin.
Sorgin mér syrtir í augum,
ég sé ekki að ganga,
en veit að fá eru fetin,
unz fæ að sjá ljósið.

Leizt mig títt ljúfur í hjarta,
ég leit þig á móti.
Leiðstu mig illa, er áttir,
en eg leit þig kæran.
Lýttir mig sök fyrir litla,
því líða má harma.
Þú lítur mig loksins á hæðum,
en lýtir þá ekki.

Mér hefur alltaf þótt vænt um formóður mína, hana Guðnýju frá Klömbrum.

Engin ummæli: