sunnudagur, september 04, 2005

Friðarlíkur?

Var að hjálpa 10 ára syni mínum með heimavinnuna fyrir kristinfræði. Verkefnið fólst m.a. í því að teikna kort af svæðinu við botn Miðjarðahafs eins og það leit út þegar Móses arkaði með þjóð sína á leið til fyrirheitna landsins. Vel gekk að teikna þetta kort, enda skýr mynd af því í bókinni Brauð lífsins fyrir grunnskólanema. Síðan átti hann að teikna kort af svæðinu eins og það er í dag. Þá vandaðist heldur málið. Kortabók heimilisins er forngripur mikill að vöxtum, Brittanica Atlas, stúdentsgjöf til mín frá gömlum kærasta (já, ég veit, rómantísk gjöf). Ég fletti upp á Ísrael í 2000 blaðsíðna indexinum og rýndi í kortið. Fyrir fáfróðan eyjaskeggja eru landamæri Ísraels æði flókin en ég þóttist þó greina útlínur fyrirheitna landsins og önnur svæði eins og Gasa og Vesturbakkann (en hvað af þessu var nákvæmlega Ísrael?). Kallaður var til vitringur heimilisins, Pétur. Jukust þá vandræðin um allan helming, því hann fór að röfla um Jomm Kippúr stríðið og 6 daga stríðið og við þetta snarminnkaði skilningur okkar Hjalta á máli málanna - hvar er Ísrael á kortinu? Skemmst er frá því að segja að ég varð ofboðslega pirruð út í kallinn og hann varð ákaflega pirraður á móti. Deilur við við botn Faxaflóans stigmögnuðust og litli grunnskólaneminn varð fórnarlamb þessa stríðs og veit ekki enn hvar Ísrael er á kortinu, en situr uppi með beyglað verkefnablað, þar sem foreldrar hans í stríðsham strikuðu og strokuðu út á víxl útlínur fyrirheitna landsins.

Ein spurningin sem Hjalti átti að svara var svona: Af hverju lesum við þessar sögur aftur og aftur? Góð spurning. Gamla testamentið er klassík.

Engin ummæli: