sunnudagur, september 18, 2005

Fjórar búnar,

og nú tefla strákarnir fimmtu og síðustu umferð. Þeir eru enn í efsta sæti og dugir 1 1/2 vinningur til sigurs, en allt getur gerst, ekkert í höfn. Maður er hreinlega að drepast hér úr spenningi, Danir eru einbeittir og ætla sér að reyna að vinna, enda á heimavelli. Búin að heyra orðið "Ísland" oft muldrað hér í súrum tón, þegar "vores Nordiske venner" spá og spekúlera í úrslit. Mótshaldarar eru annars afar vingjarnlegir og fyrir utan þessa aðsjálni í mat, þá er allt hér þeim til sóma.

Strákarnir hafa á milli skáka farið í fótbolta (rústuðu Svíum þar) og veitt krabba niður við höfn. Mér til skelfingar komst ég að því að þeir hafa drepið þá sér til skemmtunar (þ.e. krabbana, ekki Svíana). Litlu sadistarnir mínir. Ég hef reynt að malda í móinn, en það er ekki mikið hlustað á svoleiðis mömmuvæl. Blessaðir litlu básúnuenglarnir. Annars var ég að frétta að Ísland væri hér með yngsta liðið í grunnskólakeppninni, enda sér maður á hinum að þar eru langoftast á ferð stórir og lubbalegir 10.bekkingar.

Jæja, ég ætla að halda áfram að kveljast úr spennu og rækta kvíðasjúklinginn í mér. Hann er alltaf svangur.

Engin ummæli: