Sólin skín í "Kalövig sejl- og kursuscenter" en þar er ég stödd akkúrat núna (rétt hjá Árósum). Er hér á móti sem þið getið lesið um: www.skoleskak.dk/nm2005
Hér er gaman. Veðrið frábært, aðstaðan fín. Erum 8 í íslenska hópnum; tvær mömmur, fimm skákstrákar og einn leiðtogi (Torfi Leósson, snillingur). Erum í huggulegu húsi þar sem eru fjögur tveggja manna herbergi og tvö baðherbergi. Hér er stór smábátahöfn (hmm...já, það eru til stórir dvergar og litlir risar). Það er svo fallegt hér og Danirnir eru vinalegir og ég er svo spennt.
Ferðin gekk vel. Eftir flugið tók við ríflega þriggja tíma lestarferð. Leiðtoginn sat allan tímann með lopahúfu yfir augunum og lék blindskák/fjöltefli við liðið. Úrslit urðu þessi: Torfi vann þrjár skákir (Villa, Einar og Aron) en tapaði fyrir Daða og Matta. Reyndar kláruðust ekki alveg skákirnar við Aron og Matta (við þurftum að stíga út úr lestinni) en Matti var með unna stöðu og Aron tapaða þegar við pökkuðum saman. Lestarferðin var sérstök. Návígi við fimm 14 ára drengi er bráðskemmtilegt, en hefur einn óskost. Skal gefa ykkur eina vísbendingu: smells like teen spirit. Ég kann ekki við að reka aðra en minn í bað.
Við komu á mótsstað vildi enginn kannast við okkur. Enginn vissi neitt og allir héldu að við værum Færeyingar (getur verið að danskan mín hljómi ekki eins og hjá Dana??). Danskur heimilisfaðir á sokkaleistunum, gekk út úr sínu litla rauða húsi og fann fyrir okkur mann sem vissi eitthvað um mótið. Heimilisfaðirinn var vinalegur náungi (sem þarf örugglega að fá sér nýja sokka).
Hér er líka lið frá MH, því Norðurlandamót í framhaldsskólaskák fer fram samtímis grunnskólamótinu. Þegar ég sat til borðs í gærkvöldi með MHingunum, sá ég í anda strákana mína (alla fimm) eftir svona 3-4 ár. Menntskælingarnir ætluðu sko að kíkja í bæinn eftir matinn, þótt leiðtogi þeirra, allnokkuð við aldur, tæki með þreytulegu andvarpi undir slíkar hugmyndir. Enda fór hann snemma í rúmið kallanginn og lið MH mætti ekki kl. 8 í morgunmatinn.
Annars var ég klukkuð af hrekkjusvíninu Ástu. Verð því að segja 5 hluti um sjálfa mig.
1. Er dreymin og sérvitur
2. Nota skó nr.37
3. Finnst gott að láta klóra mér á bakinu
4. Hef aldrei bragðað Fisherman´s Friend snafs
5. Á þrjú frábærustu börn í heimi
Ég klukka Jenný frænku, Pétur, Geir frænda og Æri.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli