laugardagur, september 17, 2005

Tíu fríkadellur.

Skákmótið er æsispennandi, Ísland í 1.-2.sæti eftir tvær umferðir og sem ég skrifa þetta eru mínir menn að tefla við Dani (sterk sveit). Komið er eitt tap, einn vinningur og eitt jafntefli og maður nagar bara neglurnar upp í kviku. Matti minn er einn eftir eins og í gærkvöldi, en þá lenti hann í að tefla 5 tíma skák, sem hann svo tapaði á tíma. Hrikalegt álag á þessum strákum, maður skilur ekki hvernig þeir halda þetta út. Tvær skákir á dag sem geta tekið 5 tíma hvor! MH ingar hafa líka staðið sig vel og eru í 2.sæti eftir þrjár umferðir.

Eins og ég sagði áður er aðstaða hér öll í góðu lagi. Eitt er þó rotið í ríki Dana og hefði ég aldrei trúað því upp á frændur okkar að þeir ættu þetta til. Þeir eru svo nískir á matinn, að maður á bara ekki orð. Þvílíkt og annað eins. Í gærkvöldi var messað yfir svöngum skákgörpum í biðröð eftir matnum að enginn mætti taka sér meira en "et stykke köd". Var þetta svo endurtekið síðar í ströngum tón, yfir ærandi garnagaul keppenda, því einhver hafði greinilega stolist til að fá sér tvær sneiðar (og svo sá ég eina detta í gólfið, það hefur sett allan útreikning Dana úr jafnvægi). Ólafur H. Ólafsson, liðsstjóri MHinganna, bað þetta kvöld um mjólk með matnum (hann er roskinn maður, slæmur í maga og þarf að eigin sögn að drekka mjólk með mat). Komið var með mjólkurglas til Ólafs og hann umsvifalaust rukkaður um 20 kr. danskar fyrir. Eitt mjólkurglas á ríflega 200 ísl. krónur! Þeir gefa bara blávatn hér með matnum og stórsjá örugglega eftir því oní okkar háls. Við hádegisverð í dag var haldinn fyrirlestur yfir keppendum af því að einhverjir tóku sér fleiri en þrjár kjötbollur. Hélt mótshaldarinn því fram með lítt dulinni vandlætingu að einhver hefði fengið sér tíu fríkadellur á diskinn. Hvernig áttu menn að vita að það mætti bara taka þrjár kjötbollur? Er það náttúrulögmál að þrjár litlar kjötbollur dugi öllum, stórum sem smáum, feitum sem mjóum? Svöngum táningum? Keppendur voru sumsé skammaðir fyrir græðgi og sagt að einhverjir aftast í röðinni hefðu komið að tómum kjötfötum. Ekki nóg með það heldur kvarta mótshaldarar yfir matgræðgi keppenda á heimasíðu mótsins! Sjá kvart og kvein á: skoleskak.dk/nm2005
Maður er bara galhneykslaður, svei attan.

Annars hvet ég alla skákáhugamenn sem lesa bloggið mitt að fylgjast með úrslitum á skák.is eða skoleskak.dk

Engin ummæli: